- Auglýsing -
- Brasilíumenn unnu Portúgala, 34:28, í vináttulandsleik í handknattleik karla í Portúgal í gær en lið beggja þjóða búa sig nú undir þátttöku í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. Portúgal er með í fyrsta skipti.
- Brasilíumenn voru fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:13. Fimm einn vörn brasilíska liðsins reyndist Portúgölum erfið. Daymaro Salina skoraði fjögur mörk fyrir Portúgal og var markahæstur. Leonardo Dutra var atkvæðamestur í brasilíska liðinu með sex mörk.
- Portúgalska landsliðið á eftir að leika tvo vináttuleiki við spænska landsliðið áður en haldið verður til Tókýó. Fyrri leikurinn verður í Caminha 8. júlí og sá síðari tveimur dögum síðar í Vigo.
- Þýski landsliðsmaðurinn Julius Kühn notaði tækifærið þegar nokkrir frídagar gáfust frá handboltaæfingum til þess að ganga í hnappelduna. Kühn, sem leikur undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar hjá MT Melsungen gekk að eiga sambýliskonu sína til nokkurra ára, Mirlinda, í bænum Kassel.
- Brúðkaupsferðin verður að bíða betri tíma því Kühn á að mæta á æfingu með þýska landsliðinu á mánudaginn en þá hefst lokaundirbúningur fyrir Ólympíuleikanna undir stjórn Alfreðs Gíslasonar landsliðsþjálfara. Æft verður í Herzogenaurach.
- Norska landsliðskonan Marit Frafjord segir að næsta tímabil sitt verði það síðasta með Team Esbjerg og hugsanlega það síðasta á ferlinum. Frafjord hefur átt afar sigursælan feril og m.a. unnið tólf sinnum til verðlauna með norska landsliðinu, þar af átta sinnum gullverðlaun.
- Lærisveinar Arons Kristjánssonar í landsliði Barein mæta argentínska landsliðinu undir stjórn Manolo Cadenas í vináttuleik síðar í þessum mánuði en bæði lið eru að búa sig undir Ólympíuleikana.
- Auglýsing -