- Portúgal og Spánn mætast í úrslitaleik Evrópumóts karla í handknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri kl. 16 í dag í Porto. Lið þjóðanna mættust fyrr á mótinu og vann Portúgal með eins marks mun, 36:35.
- Portúgalska undrabarnið Francisco Mota da Costa skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins. Da Costa, sem er aðeins 17 ára, er sem stendur markahæsti leikmaður keppninnar ásamt Slóvenanum Mita Janc. Þeir hafa skorað 47 mörk hvor. Janc hefur lokið keppni. Þess má geta að Mita Janc er bróðir Blaž Janc leikmanns Barcelona.
- Daninn Thomas Sommer Arnoldsen er þriðji með 44 mörk. Danska landsliðið mætir þýska landsliðinu í leik um 7. sætið í dag. Arnór Atlason er þjálfari danska liðsins.
- Svíar og Serbar leika um bronsverðlaun Evrópumóts 20 ára landsliða og Ungverjar og Frakkar leiða saman hesta sína í baráttu um 5. sætið.
- Andri Már Rúnarsson er sem stendur í 5. sæti yfir markahæstu leikmenn EM U20 ára með 43 mörk. Benedikt Gunnar Óskarsson situr í 9. sæti með 37 mörk.
- Halldór Jóhann Sigfússon verður ekki eini nýliðinn í þjálfaratreymi danska úrvalsdeildarliðsins Tvis Holstebro þegar æfingar hefjast á nýjan leik á næstu dögum. Søren Rasmussen fyrrverandi landsliðsmarkvörður Dana hefur verið ráðinn markvarðaþjálfari liðsins. Rasmussen lagði skóna á hilluna í vor eftir langan og farsælan feril. Á síðasta tímabili var Rasmussen markvörður hjá Ribe-Esbjerg eftir að hafa verið markvörður GOG árum saman, var m.a. í markavarðteymi liðsins með Viktori Gísla Hallgrímssyni.
- Rússneski handknattleiksmaðurinn Timur Dibirov er sagður vera á leiðinni til RK Zagreb frá Vardar Skopje. Dibirov skrifaði undir nýjan samning við Vardar í sumar en eftir að félaginu var vísað úr keppni í Meistaradeild Evrópu hefur komið los á leikmenn liðsins. Ef Dibirov fer frá Vardar er það stórfrétt því fáir ef nokkrir leikmenn hafa verið liðinu tryggari. Dibirov hefur verið hjá Vardar í níu ár og m.a. unnið Meistaradeild Evrópu tvisvar auk þess að standa með liðinu gegnum súrt og sætt á þessum árum.
- Auglýsing -