- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Dagur, Róbert, Arnar, Berta, Elín, Halldór, Dana, Orri, Ýmir, Andrea

Dagur Gautason leikmaður ØIF Arendal. Mynd/Helge Olsen
- Auglýsing -
  • Dagur Gautason skoraði fjögur mörk þegar ØIF Arendal vann mikilvægan sigur á Drammen, 32:27, í kapphlaupi liðanna um þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar í gær. Leikurinn fór fram í Sør Amfi í Arendal. Afar góður fyrri hálfleikur hjá Arendal-liðinu lagði grunninn að sigrinum en staðan var 18:9 að honum loknum.
  • Róbert Sigurðarson var að vanda í vörn Drammen og lét til sín taka. Hinn hálf íslenski Viktor Petersen Norberg skoraði tvö mörk.
  • ØIF Arendal er í þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 32 stig eftir 22 leiki. Drammen þremur stigum á eftir þegar flest lið deildarinnar eiga fjóra leiki eftir óleikna. Kolstad og Elverum eru í efstu sætunum tveimur.
  • Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði ekki mark þegar lið hans, Amo HK, tapaði fyrir Ystads IF, 33:25, í undanúrslitum sænsku bikarkeppninnar í gær. Hammarby vann Önnereds, 32:30, í hinni viðureign undanúrslita og mætir Ystads IF í úrslitaleik í dag.
  • Berta Rut Harðardóttir skoraði tvö mörk í eins marks sigri Kristianstad á meisturum síðasta árs, Sävehof, 41:40, á heimavell í 19. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í gær. Leikurinn fór fram í Kristianstad. Með sigrinum færðist Kristianstad upp í sjötta sæti deildarinnar með 20 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Annað Íslendingalið, Skara HF, er í fimmta sæti með 21 stig.
  • Elín Jóna Þorsteinsdóttir og samherjar hennar í EH Aalborg unnu Ringsted örugglega í gær, 35:27, í næst efstu deild danska handknattleiksins í gær. EH Aalborg hefur fyrir nokkru síðan tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.
  • Halldór Jóhann Sigfússon og liðsmenn hans í Nordsjælland töpuðu fyrir Aalborg Håndbold, 30:28, í Álaborg í gær en leikurinn var liður í 24. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar. Þegar tvær umferðir eru eftir er Nordsjælland í næst neðsta sæti úrvalsdeildar en eitt lið fellur beint úr deildinni í vor og fimm taka þátt í umspilskeppni. Aalborg er á hinn bóginn lang efst í deildinni.
  • Dana Björg Guðmundsdóttir átti stórleik með Volda í gær í sjö marka sigri á Junkeren, 26:19, á heimavelli í næst efstu deild norska handknattleiksins. Volda er í öðru sæti deildarinnar með 34 stig eftir 21 leiki, er fjórum stigum á eftir Haslum.
  • Orri Freyr Þorkelsson skoraði þrjú mörk fyrir Sporting þegar liðið vann Artística de Avanca, 32:26, í 21. umferð portúgölsku 1. deildarinnar í fyrrakvöld. Sporting er lang efst í deildinni. Liðið hefur unnið alla leiki sína í deildinni fram til þessa. Benfica er í öðru sæti, átta stigum á eftir.
  • Ýmir Örn Gíslason og leikmenn Rhein-Neckar Löwen töpuðu fyrir Erlangen, 28:23, í Nürnberg í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Ýmir Örn skoraði ekki mark í leiknum. Rhein-Neckar Löwen situr í 11. sæti deildarinnar.
  • Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik er ekki byrjuð að leika á ný eftir að hafa fengið höfuðhögg fyrir nokkrum vikum. Hún var þar af leiðandi ekki með Silkeborg-Voel í gær þegar liðið vann stórsigur á Bjerringbro, 39:27, á heimavelli. Silkeborg-Voel er í góðri stöðu í dönsku úrvalsdeildinni þegar tvær umferðir eru eftir. Liðið situr í fimmta sæti og öruggt um sæti í úrslitakeppni átta efstu lið um danska meistaratitilinn.
  • Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -