- Daníel Þór Ingason og Rúnar Kárason máttu þola naumt tap, 29:28, fyrir Bjerringbro/Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöldi á útivelli. Mads Øris Nielsen skoraði sigurmarkið þegar tvær sekúndur voru eftir af leiktímanum. Rúnar skoraði sex mörk í níu skotum auk fjögurra stoðsendinga. Daníel Þór skoraði fjögur í sex skotum og átti tvær stoðsendingar. Ribe-Esbjerg er í níunda sæti og á þrjá leiki eftir í deildinni. Liðið á enn von um að ná sæti í úrslitakeppni átta efstu liða um danska meistaratitilinn.
- Ólafur Andrés Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson höfðu sig lítið í frammi þegar lið þeirra, IFK Kristianstad vann öruggan sigur á Önnereds, 34:22, í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöld enda hefur verið gífurlegt álag á þeim síðustu vikur. Teitur skoraði eitt mark í fimm skotum og Ólafur átti eitt markskot sem geigaði. Kristianstad er í sjötta sæti deildarinnar og er öruggt um sæti í úrslitakeppninni.
- Aron Dagur Pálsson og félagar í Alingsås sitja í fjórða sæti deildarinnar. Þeir gerðu jafntefli við Hallby, 30:30, á útivelli í gærkvöld. Aron Dagur skoraði ekki mark að þessu sinni. Hann hefur einnig staðið í ströngu síðustu vikur og mánuði eins og landar hans hjá Kristianstad, verið í eldlínunni jafnt í sænsku úrvalsdeildinni og í Evrópudeildinni.
- Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar í Kadetten hafa einnig haft í mörg horn að líta síðustu vikur og mánuði. Þeir gerðu jafntefli á heimavelli í gærkvöld gegn HC Kriens, 25:25. Kadetten er í þriðja sæti deildarinnar með 33 stig, er stigi á eftir Kriens og þremur á eftir Pfadi Winterthur en á leik til góða á bæði lið.
- Daníel Freyr Andrésson og félagar í Guif kræktu í mikilvægt stig í fyrrakvöld þegar þeir gerðu jafntefli við Skövde á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni, 27:27. Daníel Freyr varði 14 skot sem lagði sig út á rúmlega 34% hlutfallsmarkvörslu. Guif komst upp í áttunda sæti með þessu stigi en liðið er í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina um sænska meistaratitilinn. Bjarni Ófeigur Valdimarsson lék ekki með Skövde. Hann hefur ekki jafnað sig á meiðslum í nára.
- Hörður Fannar Sigþórsson skoraði tvö mörk fyrir KÍF í jafntefli við Team Klaksvik, 31:31, í færeysku úvalsdeildinni í handknattleik í fyrrakvöld. Þetta var fyrsti leikur KÍF í deildinni eftir að keppni hófst aftur eftir hlé vegna bikarkeppninnar. KÍF er í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig eftir 15 leiki.
- Auglýsing -