- Auglýsing -
- Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði þrjú mörk og Andrea Jacobsen tvö í stórsigri liðs þeirra, Blomberg-Lippe, á smáliðinu Ht Norderstedt, 39:14, í fyrstu umferð þýsku bikarkeppninnar í handknattleik í gær. Þetta var fyrsti formlegi leikur landsliðskvennanna tveggja eftir að þær gengu til liðs við Blomberg-Lippe í sumar, Díana Dögg frá BSV Sachsen Zwickau en Andrea frá Silkeborg-Voel í Danmörku.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir og nýir samherjar hennar í Aarhus Håndbold féllu úr leik í 16-liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í handknattleik í gær. Árósarliðið tapaði fyrir Ikast, 31:25, á heimavelli. Elín Jóna var um tíma í marki liðsins og varði eitt skot af níu. Hún færði sig um set í sumar og eftir ársveru hjá EH Aalborg.
- Ikast er með afar sterkt lið sem átti m.a. sæti í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð og gekk prýðilega.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu í fyrsta leik sínum í austurrísku deildarkeppninni í gær þegar Alpla Hard og Vöslau gerðu jafntefli, 28:28, á heimavelli Hard. Vöslau var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:14. Tumi Steinn gekk til liðs við Alpla Hard í sumar eftir tveggja og hálfs árs veru með þýska liðinu Coburg. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard.
- Reynir Stefánsson, varaformaður HSÍ, verður eftirlitsmaður á viðureign danska liðsins Mors-Thy og þýska liðsins Gummersbach í fyrri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik karla í dag. Leikurinn fer fram í Thisted á Jótlandi.
- Fleiri Íslendingar en Reynir koma við sögu í leiknum í Thisted. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach og Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson leika með liðinu.
- Litáarnir Tomas Barysas og Povilas Petrusis dæma viðureign Vals og RK Bjelin Spacva Vinkovci í fyrri umferð forkeppni Evrópudeildar karla í handknattleik á Hlíðarenda í dag. Leikurinn hefst klukkan 17.30.
- Arnór Viðarsson lék sinn fyrsta í opinberri keppni með Fredericia HK í gær þegar liðið vann HC Midtjylland, 32:25, á útivelli í 16-liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í handknattleik. Einar Þorsteinn Ólafsson leikur einnig með liðinu auk þess sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar liðið þriðja tímabilið í röð. Arnórs og Einars er ekki getið í upptalningu á þeim leikmönnum Fredericia HK sem skoruðu í leiknum í frásögn af leiknum á heimasíðu félagsins í morgun.
- Auglýsing -