- Auglýsing -
- Díana Dögg Magnúsdóttir er í 19. sæti yfir markahæstu leikmenn þýsku 1. deildarinnar í handknattleik með 30 mörk. Hún er um leið markahæsti leikmaður BSV Sachsen Zwickau. Ennfremur er Díana Dögg í 11. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar þegar mörk úr vítaköstum eru ekki talin með en Eyjakonan hefur ekki skorað úr vítakasti á leiktíðinni. Hún hefur reyndar ekki fengið tækifæri til þess.
- Danski handknattleiksmarkvörðurinn Rikke Poulsen ætlar að leggja handknattleiksskóna á hilluna næsta vor. Poulsen, sem er 35 ára gömul, hefur varið markið hjá Esbjerg frá árinu 2019.
- Nikolaj Læsø, leikmaður Aalborg, og Rune Dahmke liðsmaður Kiel eru orðaðir við norska handknattleiksliðið Kolstad sem hefur safnað að sér liði síðustu daga.
- Sjö leikmenn ungverska liðsins FTC hafa framlengt samninga sína til ársins 2024 eftir því sem félagið greinir frá í gær. Hér er um að ræða Angela Malestein, Blanka Bíró, Kinga Janurik, Anett Kisfaludy, Anett Kovács, Emily Bölk og Alicia Stolle. Eins er ljóst að þjálfarinn Gábor Elek verður áfram, alltént til loka leiktíðar 2023, nema að veður skipist skjótt í lofti.
- Hollenska handknattleikskonan Estavana Polman segist vera mjög bjartsýn á að snúa til baka út á handknattleiksvöllinn á næstu dögum. Hún hefur meira og minna verið frá keppni síðan í ágúst á síðasta ári þegar krossband í öðru hné hennar slitnaði. Polman lék nokkra leiki með Esbjerg í Danmörku í vor áður en babb kom í bátinn. Hún vonast til að geta verið með hollenska landsliðinu á HM á Spáni sem hefst um næstu mánaðarmót. „Hnéið hefur aldrei verið sterkara en um þessar mundir,“ sagði Polman m.a. í viðtali við Jydske Vestkysten.
- Auglýsing -