- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, átti stórleik og skoraði 11 mörk fyrir PAUC í fjögurra marka sigri á Saran á heimavelli, 35:31, í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Donni var markahæsti leikmaður vallarins. Donni hefur ekki skorað fleiri mörk í deildarleik með PAUC á þeim fjórum leiktíðum sem hann hefur leikið með liðinu.
- Handknattleiksmarkvörðurinn Sigurður Ingiberg Ólafsson hefur gengið til liðs við Fjölni frá ÍR. Sigurður lék síðast með ÍR leiktíðina 2021/2022 en varð fyrir því óláni að slíta krossband í leik keppnistímabilsins og hefur ekki leikið handknattleik síðan. Sigurður var í Íslandsmeistaraliði Vals vorið 2017. Hann lék síðar með Kríu 2020/2021.
- Ólafur Atli Malmquist Hulduson er einnig kominn til liðs við Fjölni frá ÍR og verður klár í slaginn þegar keppni hefst í Grill 66-deildinni á morgun, laugardag.
- Dagur Logi Sigurðsson er þriðji leikmaður sem orðinn er leikmaður Fjölnis. Hann var lánaður til félagsins út keppnistímabilið frá Stjörnunni.
- Bjartur Már Guðmundsson er orðinn leikmaður Fram. Bjartur var liðsmaður Roskilde Håndbold í Danmörku á síðasta vetri en var ekki aðsópsmikill með liðinu. Þar áður var Bjartur í Færeyjum í einn vetur og lék með StÍF.
- Davíð Hlíðdal Svansson, markvörður, fékk í gær félagaskipti til Hvíta riddarans frá Aftureldingu. Sömu sögu er að segja um Hermann Þór Þórarinsson. Handknattleiksmenn hafa streymt til liðs við Hvíta riddarann síðustu daga en liðið leikur í 2. deild karla í vetur.
- Auglýsing -