- Auglýsing -
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður og leikmaður Ringkøbing Håndbold er í liði 21. umferðar í dönsku úrvalsdeildinni en liðið var kynnt til sögunnar í gær. Elín Jóna fór hamförum í marki Ringkøbing gegn København Håndbold í fyrrakvöld, varði 19 skot, 42,2%. Því miður nægði frammistaðan ekki til sigurs.
- Andrea Jacobsen og stöllur í EH Aalborg unnu öruggan sigur á AGF Håndbold, 32:26, á heimavelli í næst efstu deild danska handknattleiksins. Andrea skoraði þrjú mörk. Þetta var 17. sigur EH Aalborg í röð. Liðið er í efsta sæti deildarinnar með tveggja stiga forskot á Bjerringbro þegar hvort lið hefur leikið átján sinnum. Fjórar umferðir eru eftir. Efsta liðið þegar upp verður staðið tekur sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili en þau sem hafna í öðru og þriðja sæti fara í umspil.
- Grétar Ari Guðjónsson og félagar í Sélestat unnu mikilvægan sigur á útivelli í gærkvöld er þeir sóttu liðsmenn PAUC heim í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Leikmenn PAUC hafa greinilega ekki jafnað sig eftir tapið fyrir Val á þriðjudaginn því þeir steinlágu fyrir Sélestat sem er neðst í deildinni, lokatölur, 31:25. Grétar Ari var í marki Sélestat á lokakaflanum og varði fimm skot, þar af eitt vítakast, 30%. Sélestat er áfram neðst í deildinni en hefur nú sex stig þegar 12 umferðir eru eftir. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, er í veikindaleyfi og lék þar af leiðandi ekki með PAUC sem situr í sjöunda sæti deildarinnar.
- Storhamar tapaði fyrir Sola í undanúrslitum norsku bikarkeppninnar í handknattleik kvenna í gær, 29:26. Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar. Sola leikur til úrslita við Vipers Kristiansand í úrslitum á morgun. Vipers vann Byåsen í hinni viðureign undanúrslitanna, 32:29.
- Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk og átti þrjár stoðsendingar þegar Aalborg vann öruggan sigur á SønderjyskE, 34:23, á heimavelli í gærkvöld í 21. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg sem er efst í deildinni með 37 stig eftir 21 leik. Ríkjandi meistarar GOG er í öðru sæti með 33 stig en eiga leik til góða á Aalborgarliðið. Bjerringbro/Silkeborg er í þriðja sæti með 32 stig eftir 21 leik.
- Hannes Jón Jónsson og leikmenn hans í Alpla Hard kræktu í eitt stig á heimavelli í gærkvöld þegar þeir gerðu jafntefli við Krems, efsta lið austurrísku 1. deildarinnar, 23:23. Reyndar má segja að Krems hafi náð jafntefli því það voru leikmenn liðsins sem jöfnuðu metin á síðustu mínútu leiksins. Alpla Hard er í fjórða sæti.
- Auglýsing -