- Auglýsing -
- Stórleikur landsliðsmarkvarðarins Elínar Jónu Þorsteinsdóttur í marki Ringkøbing Håndbold dugði ekki til sigurs á København Håndbold á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Elín Jóna varði 19 skot, 42%, í 28:25 tapi. Ringkøbing er í 11. sæti af 14 liðum með níu stig.
- Steinunn Hansdóttir skoraði tvö mörk fyrir Skanderborg Håndbold í gærkvöld þegar liðið vann dýrmætan sigur í botnbaráttu dönsku úrvalsdeildarinnar. Skanderborgarliðið vann SønderjyskE á heimavelli, 32:24. Skanderborg Håndbold er ennþá næst neðst en hefur nú sjö stig eins og Ajax sem er í 12. sæti.
- Óskar Ólafsson skoraði sex mörk og var markahæstur hjá Drammen þegar liðið tapaði með minnsta mun fyrir Nærbø, 26:25, á útivelli í gærkvöld í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Leikurinn fór fram á heimavelli Nærbø. Viktor Petersen Norberg skoraði aðeins eitt mark fyrir Drammenliðið sem var marki yfir í hálfleik, 17:16. Viktor átti fimm stoðsendingar. Drammen er sem fyrr í þriðja sæti deildarinnar og er fimm stigum á eftir Elverum sem situr í öðru sæti. Kolstad er langefst. Nærbø, sem vann Evrópubikarkeppnina á síðasta tímabili, er í sjötta sæti.
- Ísak Steinsson markvörður U19 ára landsliðs Íslands á EM á síðasta sumri lék í stuttan tíma í marki Drammen í leiknum í gær og varði þrjú af þeim fjórum skotum sem á mark hans kom þann tíma sem hann stóð vaktina. Þetta var þriðji leikur Ísaks í röð með Drammen. Hann æfir með unglingaliði félagsins en hefur verið kallaður inn í aðalliðið að undanförnum í forföllum annars markvarðar Drammenliðsins.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir GC Amicitia Zürich í gærkvöld í sjö marka tapi í heimsókn til HV Herzogenbuchsee í svissnesku A-deildinni í handknattleik, 31:24. Sunna Guðrún Pétursdóttir varði tvö skot af níu sem á mark hennar barst þann tíma sem hún stóð á milli stanganna í marki GC Amicitia Zürich. Við tapið féll GC Amicitia Zürich niður í fimmta sæti A-deildarinnar úr fjórða en HV Herzogenbuchsee skaust upp í þriðja sæti.
- Auglýsing -