- Auglýsing -
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði sjö skot, þar af eitt vítakast, 22%, þegar lið hennar Ringköbing Håndbold tapaði á heimavelli fyrir meisturum Odense Håndbold, 35:32, í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Odense er efst í deildinni með 48 stig eftir 25 leiki þegar ein umferð er eftir. Elín Jóna og félagar eru í næst neðsta sæti með 12 stig og taka sæti í umspilskeppni um að forðast fall úr deildinni en aðeins eitt lið fellur beint niður í 1. deild. Talsvert er síðan að ljóst varð að Holstebro fellur úr deildinni.
- Fabian Wiede skoraði níu mörk og Julius Kühn fimm fyrir þýska landsliðið þegar það skildi með skiptan hlut í vináttulandsleik við Ungverjalandi í Gummersbach í gær, 31:31. Pedro Rodriguez var markahæstur hjá Ungverjum með sjö mörk. Lið þjóðanna mætast aftur í Kassel í dag.
- Danir unnu Spánverja, 29:25, og Frakkar lögðu Norðmenn, 37:29, á fjögurra liða móti landsliða karla í Danmörku í gær. Mótinu lýkur í dag með viðureign Dana og Frakka og Norðmanna og Spánverja.
- Kyndill varð í gær færeyskur bikarmeistari í handknattleik kvenna. Kyndill vann H71, fremur óvænt, með tveggja marka mun í framlengdum úrslitaleik, 36:34. Viðureigninni varð að fresta fyrir mánuði vegna þátttöku H71 í Evrópubikarkeppninni. Turið Arge Samuelsen, sem lék um skeið með Haukum fyrir nokkrum árum, var markahæst hjá Kyndli með 12 mörk.
- Auglýsing -