- Auglýsing -
- Elín Klara Þorkelsdóttir hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Hauka til næstu þriggja ára. Elín Klara sem verður 17 ára á árinu hefur komið vel inn í liðið eftir að deildin hófst á ný á þessu ári og er hún, þrátt fyrir ungan aldur, orðin mikilvægur hluti af meistaraflokksliði Hauka.
- Elín Klara bætist því í hóp ungra og efnilegra leikmanna sem eru samningsbundnir félaginu og ljóst er að meistaraflokkur kvenna verður vel mannaður á næsta tímabili en liðið er búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppni Olísdeildarinnar þetta tímabilið.
- Tvær ungar og upprennandi handknattleikskonur hafa skrifað undir samninga við ÍBV á síðustu dögum. Er þar um að ræða Bríeti Ómarsdóttur og Söru Dröfn Ríkharðsdóttur. Sú síðarnefnda var að skrifa undir sinn fyrsta leikmannasamning. Hún var í fyrsta sinn á laugardaginn í leikmannahóp ÍBV í meistaraflokksleik þegar ÍBV tók á móti FH í lokaumferð Olísdeildarinnar. Bríet er 19 ára og hefur verið í hópnum hjá meistaraflokki ÍBV undanfarin tvö ár.
- Portúgalski landsliðsmaðurinn Miguels Martins, sem leikið hefur með Porto, hefur skrifað undir þriggja ára samning við Pick Szeged í Ungverjalandi.
- Tomaz Ocvirk sagði skyndilega starfi sínu lausu sem þjálfari slóvensku meistaranna Celje Lasko í gærmorgun. Luka Zvizej stýrir liðinu út keppnistímabilið.
- Chekhovskie Medvedi varð um helgina bikarmeistari í rússneska karlahandboltanum eftir sigur á Krasnodar, 31:24, í úrslitaleik.
- Borussia Dortmund varð um helgina þýskur meistari í handknattleik kvenna. Liðið hefur unnið alla 27 leiki sína til þessa á tímabilinu. Þrjár umferðir eru eftir. Bayer Leverkusen, sem Hildigunnur Einarsdóttir leikur með, situr í 10.sæti.
- Auglýsing -