- Auglýsing -
- Elvar Ásgeirsson skoraði fimm mörk og átti fimm stoðsendingar þegar lið hans Ribe-Esbjerg tapaði fyrir Kolding á heimavelli í gærkvöld í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik, 38:33. Ágúst Elí Björgvinsson varði fimm skot þá stund sem hann lék í marki Ribe-Esbjerg gegn sínum fyrri samherjum, 18%. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði ekki mark fyrir Ribe-Esbjerg að þessu sinni.
- Ribe-Esbjerg situr þar með í níunda stæi af 14 liðum deildarinnar með 14 stig eftir 15 leiki, liðið er tveimur stigum á eftir liðsmönnum Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia Håndboldklub.
- Eftir nokkra tapleiki upp á síðkastið risu Ásgeir Snær Vignisson og félagar í Helsingborg upp á afturlappirnar í gær og unnu Bjarna Ófeig Valdimarsson og samherja í IFK Skövde með sjö marka mun á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik, 30:23. Ásgeir Snær skoraði tvö mörk, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vísað af leikvelli. Þrátt fyrir sigurinn er Helsingborg áfram í 12. sæti af 14 liðum.
- Bjarni Ófeigur skoraði fimm mörk og var næst markahæstur hjá Skövde. Hann átti einnig þrjár stoðsendingar. Eftir góða byrjun í haust þá hefur hallað undan fæti hjá Skövde upp á síðkastið. Liðið er fallið niður í sjötta sæti með 13 stig eftir 13 leiki og 12 stigum á eftir Kristianstad sem er efst.
- Norski handknattleiksmaðurinn Sander Sagosen lék sinn fyrsta handboltaleik í hálft ár á sunnudaginn þegar THW Kiel mætti Gummersbach á heimavelli. Sagosen meiddist alvarlega á ökkla í leik með Kiel undir lok síðasta keppnistímabils. Sagosen vonast til að sækja áfram í sig veðrið á næstu vikum og geta leikið með norska landsliðinu á HM sem fram fer í janúar.
- Danski handknattleiksmaðurinn Lasse Kjær Møller hefur framlengt samning sinn við Flensburg-Handewitt fram til ársins 2026. Møller kom til félagsins sumarið 2019 frá GOG í heimalandinu.
- Forráðamenn danska handknattleiksliðsins Viborg HK róa lífróður þessa daga fyrir framtíð félagsins. Þeir þurfa að afla 3,2 milljóna danskra króna, jafnvirði 65 milljóna íslenskra, fyrir lok desember til þess að forða félaginu frá gjaldþroti. Viborg hefur lengi verið eitt öflugasta kvennalið í dönskum handknattleik en hefur gefið eftir síðustu árin í samkeppni við Esbjerg, Odsene og Ikast svo dæmi sé tekið. Óskar Bjarni Óskarsson þjálfaði kvennalið Viborg HK keppnistímabilið 2012/2013.
- Ekki eru nema nokkrar vikur síðan úrvalsdeildarliðið Randers óskaði eftir gjaldþrotaskiptum.
- Auglýsing -