- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Elvar, norsku landsliðin, Berge, Thomsen, Sabate

Elvar Ásgeirsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Nancy í Frakklandi. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Elvar Ásgeirsson skoraði sex mörk fyrir Nancy í gærkvöld þegar liðið tapaði fyrir Chambéry, 36:32, á heimavelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Nancy er neðst í deildinni með fjögur stig, er fjórum stigum á eftir Istres og Saran.  
  • Norsku A-landsliðin í handknattleik kvenna og karla hafa tekið sig saman og styrkt samtökin, Redd Barna (sambærlegt við Barnaheill hér á landi), um 50.000 norskar krónur, jafnvirði rúmlega 700.00 króna. Styrkurinn er tilkominn vegna innrásar rússneska hersins í Úkraínu en því miður má búast við að börn í landinu verði harkalega fyrir barðinu á voða þeim sem íbúar Úkraínu standa frammi fyrir um þessar mundir. 
  • Christian Berge fráfarandi landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik karla var í gær ráðinn þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins, Kolstad frá Þrándheimi. Berge skrifaði undir samning við félagið sem gildir fram á mitt árið 2024. Tveir íslenskir landsliðsmenn munu leika undir stjórn Berge á næsta keppnistímabili, Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson. Forráðamenn Kolstad eru afar stórhuga. Þeir ætla liðinu sæti í fremstu röð í Evrópu innan fárra ára og virðast hafa úr digrum sjóðum að ráða til að styrkja liðið sem best. 
  • Danski handknattleiksþjálfarinn  Helle Thomsen hefur tekið við þjálfun Les Neptunes de Nantes í Frakklandi. Hún tók við starfi aðstoðarþjálfara liðsins undir lok síðasta árs. Í kjölfar slaks árangurs liðsins upp á síðkastið var ákveðið að Guillaume Saurina þjálfari axlaði sín skinn og Thomsen tæki við stjórninni. Thomsen stýrir Nantes til loka keppnistímabilsins hið minnsta. Thomsen hefur marga fjöruna sopið á þjálfaraferli sínum. Hún var um árabil með hollenska kvennalandsliðið og þjálfaði einnig í Tyrklandi, auk Danmerkur og Svíþjóðar.
     
  • Spánverjinn Xavier Sabate hefur verið ráðinn landsliðsþjálfar Tékka í handknattleik í stað hins gamalreynda Rastislav Trtík sem hætti eftir Evrópumeistaramótið í síðasta mánuði.  Aðeins er innan við ár síðan Trtík tók við starfinu. Sabate hefur víða þjálfað á síðustu árum, m.a. Veszprém, ungverska landsliðið og Wisla Plock. Hans bíður það vandasama hlutverk að koma Tékkum í lokakeppni HM á næstu ári. Tékkar mæta Norður Makedóníumönnum í umspilsleikjum eftir miðjan apríl. 
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -