- Auglýsing -
- Frá því var sagt á dögunum að handknattleikskonan Emilía Ósk Steinarsdóttir hafi fengið félagaskipti frá FH til félags í Danmörku. Ekki kom fram um hvaða félag væri að ræða. Nú liggur það fyrir að Emilía Ósk hefur gengið til liðs við Ajax sem er með bækistöðvar í Valby í Kaupmannahöfn. Emilía Ósk mun leika með U19 ára liði félagsins. Hún hyggur á nám eftir næstu áramót.
- Líklegt er að Aldís Ásta Heimisdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir leiki í fyrsta opinbera kappleikinn með Skara HF í kvöld þegar liðið mætir Skånela í sænsku bikarkeppninni í handknattleik. Bikarkeppnin er nýlega hafin í Svíþjóð. Líkt og í fyrra þá er leikið í riðlum og veikari liðin fá forgjöf gegn sterkari liðunum til þess að jafna möguleikana.
- Finnur Hansson og Sonni Larsen halda áfram þjálfun færeyska kvennalandsliðsins í handknattleik. Larsen kom tímabundið inn sem annar þjálfari landsliðsins á síðasta vetri þegar Dragan Brljevic hætti eftir nokkra mánuði í starfi. Færeyska handknattleikssambandið staðfesti í gær að Finnur og Larsen halda sínu striki og að samið hafi verið við þá að nýju. Færeyska landsliðið leikur við landslið Kósovó í forkeppni heimsmeistaramótsins í byrjun nóvember. Finnur hefur búið um langt árabil í Færeyjum en hann er af íslensku bergi brotinn.
- Undirbúningur virðist hafa gengið eins og í sögu hjá danska handknattleiksliðinu Fredericia sem Guðmundur Þórður Guðmundsson tók við þjálfun á í sumar. M.a. hefur liðið leikið fimm æfingaleiki á síðustu dögum og unnið þá alla. Síðast lágu sænsku meistararnir Ystad IF í valnum, 32:22. Fyrstu leikir dönsku úrvalsdeildarinnar verða um næstu mánaðarmót. Auk Guðmundar þá gekk Einar Þorsteinn Ólafsson til liðs við Fredericia í sumar frá Íslandsmeisturum Vals.
- Auglýsing -