- Auglýsing -
- Ethel Gyða Bjarnesen markvörður U18 ára landsliðs kvenna situr enn í öðru sæti á lista yfir þá markverði á HM sem hafa varið hlutfallslega flest skot í leik. Ethel Gyða er með 41% hlutfallsmarkvörslu til þessa þegar sex leikjum er lokið.
- Egyptinn Yathreb Walid Sayed er efst með 55% en hún hefur komið lítið við sögu, aðeins fengið á sig 21 skot í keppninni og varði 12 þeirra. Ethel Gyða hefur aftur á móti varið 66 af 161 skoti sem hún hefur fengið á sig í leikjum íslenska landsliðsins.
- Næstar á eftir Ethel Gyðu eru Marija Marsenic, Svartfjallalandi, og Matea Churlonovska, Norður Makedóníu með 39% hvor um sig. Ethel Gyða er í fjórða sæti þegar aðeins er litið til fjölda varinna skot. Þær sem eru fyrir ofan hana hafa mun lægri hlutfallsmarkvörslu.
- HK-ingurinn Ethel Gyða er einnig efst á lista þeirra markvarða sem varið hafa hlutfallslega flest vítaköst, 7 af 13, 53,8%. Eins er hún efst á blaði þegar litið er til varinna skota af línu, 6 metrar, með níu varin af 17, 52,9%.
- Ísland er með prúðasta lið heimsmeistaramóts kvenna 18 ára og yngri. Leikmönnum liðsins hefur verið vísað af leikvelli ellefu sinnum í leikjunum sex, eða samtals í 22 mínútur. Alsíringar hafa oftast verið sendir í skammarkrókinn, í 66 mínútur, þrisvar sinnum oftar en íslenska liðið. Næst á eftir íslenska liðinu í prúðmennsku eru landslið Austurríkis, Tékklands og Noregs.
- Íranska stúlkan Fatemejh Merikhi og Sevinch Erkabaeva frá Kasakstan eru markahæstar á HM U18 ára landsliða kvenna í Skopje í Norður Makedóníu. Hvor þeirra hefur skorað 50 mörk í sex leikjum. Lilja Ágústsdóttir er markahæst í íslenska liðinu með 39 mörk. Hún situr í 11. sæti.
- Elmar Erlingsson er í 10. sæti á lista yfir markahæstu leikmenn EM U18 ára landsliða í Podgorica í Svartfjallalandi með 18 mörk í þremur leikjum. Eyjamaðurinn er jafnframt markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í keppninni um þessar mundir.
- Færeyingurinn Óli Mittún lang markahæstur. Hann hefur skorað 37 mörk í þremur leikjum og er 11 á undan Ungverjanum Tamás Kovács.
- Frídagur er frá leikjum hjá íslensku piltunum á EM U18 ára í dag áður en tveir leikir á tveimur dögum taka við. Fyrst mæta þeir Svartfellingum á morgun og Ítölum daginn eftir.
- Auglýsing -