- Auglýsing -
Felix Már Kjartansson sem lék með Neistanum í Þórshöfn á síðasta keppnistímabili hefur gengið til liðs við Fram. Felix Már skoraði þrjú mörk í gærkvöld þegar Fram lagði nýliða Olísdeildar, Hörð frá Ísafirði, 27:26, á Ragnarsmótinu í handknattleik í Set-höllinni á Selfossi. Felix Már var í herbúðum HK áður en hann fór til Færeyja sumarið 2021.
- Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fjögur mörk og Ásdís Guðmundsdóttir tvö mörk þegar þeirra nýja lið, Skara IF, vann öruggan sigur á Skånela IF í Vikingahallen í Märsta í sænsku bikarkeppninni í gærkvöld, 30:21. Ásdísi var einnig vísað af leikvelli tvisvar sinnum. Þetta var fyrsti opinberi kappleikur Akureyringanna fyrir Skara-liðið. Sænska bikarkeppnin er leikin í riðlum framan af og var þetta aðeins fyrsti leikur Skara liðsins af sex í riðlakeppni fyrsta stigs bikarkeppninnar.
- Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson skoraði í tvígang fyrir Sävehof þegar liðið lagði Kungälvs HK á útivelli, 39:28. Tryggvi þótti ganga vasklega fram í vörninni og var tvisvar sinnum vísað af leikvelli. Um var að ræða aðra viðureign Tryggva og nýrra samherja hans í keppninni en auk Sävehof og Kungälv eiga lið Rimbo og Skånla sæti í riðlinum. Sävehof hefur unnið báða leikina til þessa.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði þrjú mörk fyrir Skövde sem vann Anderstorp, 32:23, á útivelli í sænsku bikarkeppninni í gærkvöld. Um var að ræða fyrstu viðureign liðanna í í keppninni að þessu sinni. Eins og áður hefur komið fram þá fá veikari liðin mismikla forsgjöf gegn þeim sterkari við upphaf leikja í sænsku bikarkeppninni. Anderstorp varð t.d. yfir, 6:0, þegar flautað var til leiks í gærkvöld.
- Króataíska meistaraliðið PPD Zagreb tryggði sér í gærkvöld sæti í undanúrslitum Austur Evrópu-deildarinnar í handknattleik karla með naumum sigri á Vojvodina frá Serbíu, 24:23, í átta liða úrslitum. Leikið var í Novi Sad í Serbíu. Úrslitahelgi Austur-Evrópudeildarinnar verður í Króatíu 2. til 4. september.
- Erik Veje Rasmussen fyrrverandi landsliðsmaður Dana og þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Aarhus hefur ákveðið að gefa kost á sér til þingmennsku fyrir flokkinn Venstre í næstu þingkosningum sem verða að öllum líkindum í byrjun vetrar. Rasmussen, sem er 63 ára gamall, lék 233 landsleiki á áttunda og níunda áratugnum og varð m.a. fyrsti danski handknattleiksmaðurinn til þess að skora yfir 1.000 mörk á landsliðsferlinum.
- Auglýsing -