- Auglýsing -
- Daninn Magnus Saugstrup tryggði Magdeburg annað stigið á heimavelli í gær þegar Rhein-Neckar Löwen kom í heimsókn, 32:32, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Gísli Þorgeir Kristjánsson átti enn einn úrvalsleikinn fyrir Magdeburg. Hann skoraði sex mörk og átti þrjár stoðsendingar. Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar. Ýmir Örn Gíslason skoraði ekki fyrir Rhein-Neckar Löwen en nóg var hjá honum að gera í vörninni.
- Rhein-Neckar Löwen er í öðru sæti með 17 stig eftir 11 leiki eins og Füchse Berlin sem á leik inni í efsta sæti. Meistarar Magdeburg er í fjórða sæti.
- Íslendingaliðið MT Melsungen heldur áfram að gera það gott í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Í gærkvöld lagði Melsungen lið Göppingen á útivelli, 29:23, og er komið upp í 9. sæti deildarinnar eftir slakan árangur framan af. Elvar Örn Jónsson skoraði fjögur mörk í leiknum í gær fyrir Melsungen og gaf tvær stoðsendingar. Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendingu.
- Tryggvi Þórisson kom lítið við sögu þegar lið hans, Sävehof, vann meistara Ystads IF, 24:23, í Ystad í gærkvöld í viðureign liðanna í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Sävehof er í öðru sæti deildarinnar með 16 stig eftir 10 leiki, er fjórum stigum á eftir IFK Kristianstad.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði fimm mörk og átti tvær stoðsendingar þegar lið hans Skövde tapaði á útivelli fyrir HK Aranäs, 28:27, í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Skövde er í þriðja sæti með 11 stig að loknum 10 leikjum.
- Ásgeir Snær Vignisson var ekki í liði Helsingborg í gær í fjögurra marka tapi í heimsókn til Redbergslid, 32:28. Helsingborg er fallið niður í 12. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar af 14 liðum eftir góða byrjun í deildinni í haust.
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði ekki mark fyrir Elverum þegar liðið vann Runar í heimsókn til Sandefjord í gær, 38:32, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla. Elverum er áfram í fjórða sæti deildarinnar með 10 stig eftir átta leiki eins og Runar. Drammen er í öðru sæti með 12 stig en Kolstad er efst með 16 stig og hefur ekki tapað stigi til þessa. Sigurinn var Elverum nauðsynlegur til þess að halda sig í toppbaráttu deildarinnar.
- Auglýsing -