- Auglýsing -
- Grétar Ari Guðjónsson og félagar í franska 2. deildar liðinu Nice náðu í jafntefli á útivelli gegn Sélestat, 25:25, í fyrri undanúrslitaleik liðanna í umspili um sæti í 1. deild franska handboltans í gærkvöld. Grétar Ari stóð stóran hluta leiksins í marki Nice en náði ekki að sýna sínar allra bestu hliðar. Hann varði fjögur skot, 22%. Liðin mætast öðru sinni í Nice á laugardaginn.
- Örn Vésteinsson Östenberg átti stórleik, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, þegar lið hans Emsdetten vann Dessau-Roßlauer HV, 35:34, í 2. deildinni í þýska handboltanum í gærkvöld. Erni héldu engin bönd. Hann skoraði 11 mörk í sigrinum mikilvæga en með honum heldur Emsdetten-liðið í veika von um að halda sæti í deildinni. Anton Rúnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Emsdetten og átti þrjár stoðsendingar.
- Emsdetten er í næst neðsta sæti deildarinnar með 23 stig þegar þrjár umferðir eru eftir og er fjórum stigum frá öruggu sæti. Annað Íslendingalið, EHV Aue, er í sömu sporum og Emsdetten. Aue átti ekki leik í gærkvöld.
- Aron Pálmarsson var ekki með Aalborg þegar liðið vann Bjerringbro/Silkeborg, 24:22, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum um danska meistaratitilinn í gærkvöld þegar leikið var í Álaborg. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg.
- Viktor Gísli Hallgrímsson kom ekkert við sögu þegar GOG vann Skjern með 10 marka mun, 33:23, í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum um danska meistaratitilinn í handknattleik. Norski landsliðsmarkvörðurinn Thorbjörn Bergerud stóð í marki GOG allan leikinn og var með 44% markvörslu. Næstu leikir undanúrslitanna verða á miðvikudag á heimavelli Bjerringbro/Silkeborg og Skjern.
- Sara Dögg Hjaltadóttir og samherjar í Gjerpen HK Skien steinlágu fyrir Tertnes í oddaleik um sæti í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöld, 36:19, en leikið var á heimavelli Tertnes. Sara Dögg skoraði þrjú mörk, þar af tvö úr vítaköstum. Þetta var kveðjuleikur Söru Daggar með Gjerpen HK Skien en hún gengur til liðs við Val í sumar. Tertnes heldur þar með sæti sínu í úrvalsdeildinni en Gjerpen HK Skien verður áfram í 1. deild.
- Auglýsing -