- Auglýsing -
- Flautað var til leiks í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla í gær. Gummersbach, liðið sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, vann Hannover-Burgdorf með fjögurra marka mun, 32:28, á útivelli.
- Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach og Teitur Örn Einarsson eitt auk fjögurra stoðsendinga. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf eins og undanfarin ár.
- Arnar Freyr Arnarsson var í leikmannahópi MT Melsungen en Elvar Örn Jónsson ekki þegar þegar liðið lagði Lemgo, 28:20, á heimavelli Lemgo í gær. Arnar Freyr skoraði ekki mark.
- Í þriðja leiknum í þýsku 1. deildinni sem fram fór í gærkvöld vann Rhein-Neckar Löwen lið THW Kiel, 32:27. Úrslitin eru nokkuð óvænt í ljósi síðustu leiktíðar þegar Rhein-Neckar Löwen gekk ekki sem skildi. Kiel lék án Nikola Bilyk, Elias Ellefsen á Skipagøtu og Harald Reinkind auk þess sem Patrick Wiencek fékk rautt spjald eftir 45 sekúndna leik.
- Tobias Wagner, hinn sterki línumaður austurríska landsliðsins, hefur samið við Erlangen í Þýskalandi til eins árs. Wagner kom til þýska liðsins í vikunni, á elleftu stundu áður en flautað var til leiks í þýsku 1. deildinni. Sebastian Firnhaber og Maciej Gebala báðir línumenn Erlangen meiddust á dögunum.
- Hinn dansk færeyski hægri hornamaður Jóhan á Plógv Hansen fær ekki nýjan samning hjá Flensburg þegar núverandi samningur rennur út á næsta ári. Félagið hefur ákveðið að skipta Hansen út fyrir Domen Novak sem nú er í herbúðum Wetzlar. Töluverðar væntingar voru gerðar til Hansen á sínum tíma og átti hann m.a. að koma í stað Lasse Svan en hefur ekki staðið undir væntingum að mati stjórnenda Flensburg. Óvíst er hvað tekur við hjá Hansen.
- Auglýsing -