- Auglýsing -
- Guðjón L. Sigurðsson verður eftirlitsmaður á viðureign Aalborg Håndbold og Eurofarm Pelister í annarri umferð A-riðils Meistaradeildar karla í handknattleik í kvöld. Leikurinn fer fram í Álaborg og hefst klukkan 18.45.
- Dagur Gautason skoraði sex mörk en Hafþór Már Vignisson ekkert þegar lið þeirra ØIF Arendal vann Runar Sandefjord, 31:28, í Sør Amfi heimavelli Arendal-liðsins í gærkvöld. Leikurinn var liður í þriðju umferð norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. ØIF Arendal er með þrjú stig eftir þrjá leiki í sjötta sæti deildarinnar. Fjórtán lið eiga sæti í úrvalsdeildinni.
- Örn Vésteinsson Östenberg skoraði ekki mark úr tveimur markskotum sínum þegar lið hans, VfL Lübeck-Schwartau, vann Bergische Panther, 31:22, í þýsku bikarkeppninni, 1. umferð í gær. Erni var tvisvar vikið af leikvelli í tvær mínútur í hvort skiptið.
- Tryggvi Þórisson og félagar í Sävehof unnu Ystads IF, 27:24, í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Tryggvi skoraði ekki mark í leiknum. Sävehof var fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10.
- Sveinn Jóhannsson skoraði fjögur mörk fyrir GWD Minden og var tvisvar vikið af leikvelli þegar GWD Minden féll úr leik í þýsku bikarkeppninni í gær eftir tap fyrir grannliðinu TuS N-Lübbecke, 28:24, á heimavelli síðarnefnda liðsins. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu fyrir GWD Minden sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar.
- Auglýsing -