- Auglýsing -
- Guðjón Valur Sigurðsson og lærisveinar hans í Gummersbach töpuðu í gærkvöld á útivelli fyrir Rimpar Wölfe, 28:24, í þýsku 2.deildinni í handknattleik. Elliði Snær Viðarsson lék ekki með Gummersbach en hann hefur ekki jafnað sig af meiðslum sem hann varð fyrir í síðasta mánuði. Gummersbach er enn í öðru sæti deildarinnar og er tveimur stigum á eftir HSV Hamburg sem trónir á toppnum. Nettelstedt-Lübbecke er í þriðja sæti stigi á eftir Gummersbach þegar bæði lið hafa lokið 24 leikjum.
- Portúgalski landsliðsmaðurinn André Gomes gengur til liðs við þýska liðið Melsungen í sumar. Frá þessu var greint í gær. Gomes, sem leikur nú með Porto, skrifaði undir þriggja ára samning við Melsungen-liðið sem er þjálfað af Guðmundi Þórði Guðmundssyi.
- TV2 í Danmörku hefur heimildir fyrir því að bosnískí línumaðurinn Senjamin Buric gangi til liðs við Skjern í sumar og fylli að einhverju leyti í skarðið fyrir Bjarte Myrhol sem tilkynnti á dögunum að hann ætli sér að hætta í sumar.
- Uwe Gensheimer, fyrirliði Rhein-Neckar Löwen og leikmaður þýska landsliðsins verður frá keppni í nokkrar vikur eftir að hann gekkst undir speglun á hné í fyrradag.
- Þegar franska liðið Nantes vann sér sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í fyrrakvöld náði leikmaður liðsins, Kiril Lazarov, þeim áfanga að komast í 17. skipti í átta liða úrslit keppninnar. Slíkt er einstakt. Lazarov stendur á fertugu og hyggst hætta keppni í sumar og snúa sér að þjálfun.
- Aron Pálmarsson skoraði eitt mark þegar Barcelona vann Puerto Sagunto, 39:24, í spænsku 1. deildinni í handknattleik í fyrrakvöld en um var að ræða frestaðan leik úr 18. umferð. Þetta var 24. sigur Barcelona í deildinni á leiktíðinni. Aron og félagar verða aftur á ferðinni í kvöld þegar þeir sækja liðsmenn Benidorm heim í 27. umferð.
- Danski handknattleiksmaðurinn Martin Larsen gengur til liðs við uppeldisfélag sitt, Aalborg Håndbold, í sumar eftir þriggja ára veru í Frakklandi og Þýskalandi, nú síðast hjá Leipzig.
- Auglýsing -