- Auglýsing -
- Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari Gummersbach hefur krækt í sænska markvörðinn Fabian Norsten og samið við hann um að leika með liði félagsins næsta árið. Norsten hefur staðið vaktina hjá IFK Skövde. Eftir að ungverski markvörðurinn Martin Nagy meiddist á dögunum og verður frá í töluverðan tíma varð ljóst að Gummersbach varð að verða sér út um markvörð áður en átökin í þýsku 1. deildinni hefjast upp úr næstu mánaðarmótum.
- Norsten hefur verið undir smásjá fleiri liða síðustu mánuðina en hann þykir mikið efni. M.a. hefur verið greint frá því að Aalborg Håndbold hafi í hyggju að fá Norsten til félagsins sumarið 2023 og að hann verði Niklas Landin til halds og trausts. Landin kemur til Álaborgar eftir ár frá Kiel. Fyrsti leikur Norsten með Gummersbach verður við HC Motor Zaporozhye í kvöld en þá mætast liðin í æfingaleik.
- Oddný Björg Stefánsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Fjölni/Fylki. Hún kom til félagsins fyrir tveimur árum og hefur staðið sig vel í marki liðsins í Grill66-deildinni.
- Eftir því sem næst verður komist ætlar Afturelding ekki að semja við Svartfellinginn Nemanja Vukovic sem lék með liðinu til reynslu á Ragnarsmótinu í handknattleik í síðustu viku. Mosfellingar leita logandi ljósi að liðstyrk fyrir átökin í Olísdeildinni sem hefst 8. september.
- Ágúst Ingi Óskarsson sem lék með Neistanum í Færeyjum á síðasta keppnistímabili hefur verið við æfingar með Haukum og var m.a. í leikmannahópi liðsins gegn ÍBV í Hafnarfjarðarmótinu í gærkvöld.
- Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fjögur mörk og Ásdís Guðmundsdóttir þrjú þegar lið þeirra Skara HF tapaði fyrir Kärra HF í æfingaleik í Gautaborg í gærkvöld, 36:32.
- Auglýsing -