- Auglýsing -
- Gunnar Óli Gústafsson og Bjarki Bóasson dæma um þessar mundir leiki í B-deild Evrópumóts kvennalandsliða skipað leikmönnum 17 ára og yngri sem fram fer í Litáen. Þeir voru í eldlínunni strax á fyrsta keppnisdegi í gær þegar þeir héldu uppi röð og reglu í viðureign Finna og Litháa. Finnar unnu leikinn, 30:27. Þeir halda sínu striki mótið á enda en því lýkur 15. ágúst.
- Örvhenti hornamaðurinn Aleix Gomez var frábær með spænska landsliðinu í handknattleik á Ólympíuleikunum. Hann skoraði alls 44 mörk í 47 tilraunum og nýtti 19 af 21 vítakasti. Gomez skoraði átta mörk í níu skotum í gær þegar Spánverjar tryggðu sér bronsverðlaunin með sigri á Egyptum, 33:31.
- Spánverjinn Jorge Maqueda hefur verið þekktur fyrir svart og mikið skegg og sítt hár í sama lit sem hann hefur yfirleitt bundið í tagl í kappleikjum. Eftir sigur Spánar á Egyptalandi í leiknum um bronsið á ÓL í gær fékk skeggið að fjúka auk þess sem hárið var skorið. Eins og sjá má á færslu samherja Maqueda, Alex Djushebaev á Twitter er kappinn nær óþekkjanlegur eftir stakkaskiptin.
how it started how it ended@maqueda5 cumple su promesa!! ✂️💇🏻♂️ pic.twitter.com/esTnfC2kLa
— Alex Dujshebaev (@AlexDujshebaev) August 7, 2021
- Hákon Daði Styrmisson heldur áfram að hrella markverði í Þýskalandi í æfingaleikjum. Í gær skoraði hann 11 mörk þegar Gummersbach vann lið HG Remscheid, 36:22. Hinn Eyjamaðurinn í Gummersbach-liðinu, Elliði Snær Viðarsson, skoraði eitt mark en lét þeim mun meira til sín taka í vörninni.
- Fyrrverandi landsliðsmarkvörður Austurríkis, Thomas Bauer, er ekki alveg af baki dottinn. Hann hefur verið án samnings síðan í vor að samningur hans við grísku meistarana AEK Aþenu rann sitt skeið. Bauer hefur nú samið við Al-Rayyan SC í Doha í Katar.
- Auglýsing -