- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Hrannar, Holstebro, Hannes, Sveinbjörn, bikarinn, Steaua

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -
  • Hrannar Ingi Jóhannsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild ÍR. Hrannar, sem hefur undanfarin þrjú ár verið í stóru hlutverk í meistaraflokksliði ÍR-inga. Hrannar Ingi fylgir þar með í fótspor markvarðarins Ólafs Rafns Gíslasonar sem einnig hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við ÍR. 
  • Danska handknattleiksliðið Holstebro Håndbold, sem Berta Rut Harðardóttir leikur með í næst efstu deild, hefur verið bjargað frá gjaldþroti eða í það minnsta frá verulegum samdrætti í rekstri. Forráðamenn félagsins tilkynntu í gær að tekist hafi að safna 1,6 milljónum danska króna, um 32 milljónum íslenskra, eins og stefnt var á sannkölluðu herhópi snemma árs. Þar með hefur fjárhagur félagsins verið tryggður til næstu framtíðar.
  • Holstebro sækir EH Aalborg heim í dag í fyrstu viðureign liðanna í umspili um sæti í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.  Andrea Jacobsen leikur með EH Aalborg. Leikurinn fer fram í Holstebro.
  • Alpla Hard, liðið sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, vann Jags Vöslau, 32:28, í síðustu umferð austurrísku 1. deildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Alpla Hard hafnaði í fjórða sæti deildarinnar og mætir Ferlach í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar sem hefst innan tíðar. Krems er deildarmeistari. 
  • Sveinbjörn Pétursson markvörður og félagar hans í EHV Aue fóru vel af stað í umspili um sæti í þýsku 2. deildinni í gærkvöld. Þeir lögðu TuS Ferndorf, 35:29, á heimavelli. Aue var átta mörkum yfir í síðari hálfleik, 31:23. Sigur liðsins var afar sannfærandi að viðstöddum 1.700 áhorfendum sem er metaðsókn á heimaleik EHV Aue á keppnistímabilinu. Ekki kom fram á heimasíðu EHF Aue hvernig Sveinbirni vegnaði á vaktinni. Hann skrifaði nýverið undir nýjan samning við félagið.
  • Næsti leikur EHV Aue í umspilinu verður við HSG Hanau eftir viku. Þar á eftir koma Anton Rúnarsson og samherjar í TV Emsdetten í heimsókn 26. apríl. Níu lið taka þátt í umspilskeppninni og leika allir við alla. Þrjú efstu liðin þegar upp verður staðið færast upp í 2. deild. EHV Aue og TV Emsdetten féllu út 2. deild fyrir ári. 
  • Leikið verður til úrslita í þýsku bikarkeppninni í karlaflokki í dag og á morgun. Í dag mætast Flensburg með Teit Örn Einarsson innanborðs og Rhein-Neckar Löwen í fyrri undanúrslitaleiknum sem fram fer í Lanxess Arena í Köln. Ýmir Örn Gíslason leikur með Rhein-Neckar Löwen.
  • Í hinni viðureign undanúrslitanna, sem hefst klukkan 17, eiga við SC Magdeburg og Lemgo. Gísli Þorgeir Kristjánsson leikur með Magdeburg. Sigurliðin í leikjum dagsins leika til úrslita á morgun og tapliðin bítast um bronsverðlaunin. THW Kiel varð bikarmeistari fyrir ári, lagði Magdeburg í úrslitaleik, 28:21.
  • Stjórnendur rúmenska liðsins Steaua Búkarest, hafa blásið til stórsóknar með karlalið sitt. Ætla þeir að sauma að Dinamo Búkarest sem hefur verið langbesta lið Rúmeníu um nokkurra ára skeið. Frakkinn Rareș Fortuneanu er sagður hafa verið ráðinn þjálfari og hermt er að hópur nýrra leikmanna sé á leiðinni til félagsins. Meðal þeirra sem nefndir hafa verið til sögunnar eru Litáinn, Aidenas Malasinkas, og Egyptinn Mamdouh Shebib sem nú er í herbúðum Dinamo. Einnig hefur verið hvíslað um að tveir pólskir leikmenn komi, auk Frakka og Dana. Nöfn þeirra hafa ekki verið opinberuð.
  • Ljóst er að margir núverandi leikmanna Steaua yfirgefa félagið. Steaua var um langt árabil öflugasta handknattleikslið Rúmeníu í karlaflokki en hefur hefur farið halloka í samkeppninni við Dinamo á allra síðustu árum eftir að menn loðnir um lófana komu inn í rekstur Dinamo sem m.a. hefur leikið undanfarin tímabil í Meistaradeild Evrópu.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -