- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Í nýtt starf, varði þrjú skot, hundóánægðar og hættar, hljóp úr vistinni, getur ekki hætt

Ungverska handknattleikskonan Anita Görbicz tekur við nýju starfi í vor. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Anita Görbicz hefur verið ráðin íþróttastjóri ungverska handknattleiksliðsins Györ. Görbicz er ein fremsta handknattleikskona síðustu tveggja áratuga og alla tíð leikið með uppeldisfélagi sínu, Györ. Hún ætlar að leggja skóna á hilluna í vor og tekur þá við starfi íþróttastjóra. 
  • Króatíska línukonan, Ana Debelic, hefur samið við Vipers í Noregi frá og með næsta keppnistímabili. Debelic var í úrvalsliði EM kvenna í desember. Debelic kemur til Vipers frá rússneska liðinu HC Astrakhanochka. Hún hefur skrifað undir þriggja ára samning við Vipers. 
  • Ágúst Elí Björgvinsson, landsliðsmarkvörður, náði sér ekki á strik og varði aðeins þrjú skot, þar af eitt vítakast, þegar lið hans, Kolding, tapaði, 34:24, fyrir Bjerringbro/Silkeborg á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Kolding er enn réttu megin við strikið, þ.e. í áttunda sæti þegar liðið á fimm leiki óleikna af deildarkeppninni. Átta efstu liðin taka þátt í keppni  um danska meistaratitilinn í vor. 
  • Bilal Šuman var í gær sagt upp störfum sem landsliðsþjálfari karlalandsliðs Bosníu í handknattleik. Stutt er síðan hann skrifaði undir nýjan samning. Á Facebook-síðu Handknattleikssambands Bosníu segir að Šuman  hafi verið sagt upp af tveimur ástæðum, vegna slaks árangurs landsliðsins og sökum þess að hann hefur ekki Master Coach réttindi. Ivica Obrvan var nær umsvifalaust ráðinn í starf landsliðsþjálfara í stað Šuman. Obrvan hefur m.a. þjálfað Chambéry í Frakklandi, RK Zagreb og landslið Makedóníu. 
  • Julia Behnke og Kim Naidzinavicius hafa lýst því yfir að þær ætli ekki framar að leika fyrir þýska kvennalandsliðið í handknattleik. Þær eru hundóánægðar með stefnu sambandsins og þjálfarans sem þær segja að hafa lengi verið á rangri braut. 
  • Serbneska skyttan reynda, Marko Vujin, mun hafa hlaupið úr vistinni hjá RK Vardar í Norður-Makedóníu. Hann mun vera óánægður með fá tækifæri með liðinu upp á síðkastið. Vujin rann víst mjög í skap eftir leik Vardar og Szeged í Meistaradeildinni á sunnudaginn þegar hann kom ekkert við sögu í leiknum. Vujin kom til Vardar á síðasta ári eftir að hafa verið í ár hjá Sporting Lissabon. Áður hafði Vujin verið árum saman hjá Kiel.
  • Sænski miðjumaðurinn Dalibor Doder er ekki af baki dottinn í handboltanum þótt hann sé kominn inn á fimmtugsaldur. Hann var að framlengja samning sinn við Ystads IF fram til loka leiktíðar 2022. Ystads IF er í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir. Ferill Doder, sem lék um árabil í Þýskalandi,  nær yfir fjóra áratugi. Hann byrjaði að leika í meistaraflokki á tíunda áratug síðustu aldar.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -