- Auglýsing -
- Óstaðfestar fregnar herma að portúgalski línumaðurinn Victor Iturizza sem nú er liðsmaður Porto gangi til liðs við Barcelona í sumar og komi í stað Frakkans Cedric Sorhaindo.
- Tímamót eiga sér stað hjá þýska 1.deildarliðinu Bergischer HC við lok leiktíðar þegar Sebastian Hinze hættir þjálfun liðsins. Hann hefur þjálfað liðið frá árinu 2012 og hafa fáir þjálfarar verið eins lífsseigir í starfi og Hinze. Arnór Þór Gunnarsson hefur leikið með Bergischer frá 2012 og er eini núverandi leikmaðurinn sem var í hópnum þegar Hinze kom og tók við þjálfun liðsins sem varð til við sameiningu Solingen og Wuppertal. Hinze lék með báðum liðum á sínum tíma.
- Fréttavefur Ekipa i Norður-Makedóníu greinir frá því gær að heimildir þess hermi að bæði Barcelona og Nantes hafi boðið Kiril Lazarov starf aðstoðarþjálfara. Leikmannasamningur Lazarov við Nantes rennur út í sumar og ætlar kappinn þá að leggja skóna á hilluna. Lazarov er þegar orðinn landsliðsþjálfari Norður-Makedóníu í karlaflokki.
- Allir leikmenn danska meistaraliðsins Aalborg reyndust neikvæðir við skimun í gær og verða þar af leiðandi gjaldgengir í kvöld þegar liðið sækir Porto heim í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar. Fimm leikmenn Álaborgarliðsins eru nýlega komnir úr einangrun eftir að hafa veikst af kórónuveirunni og eru þa gjaldgengir í leikinn í kvöld.
- Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði eitt mark þegar Vive Kielce vann Nantes, 25:24, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í gærkvöldi. Leikurinn fór fram í Nantes. Evrópumeistarar THW Kiel unnu Pick Szeged, 33:28, í hinni viðureign gærkvöldsins í 16-liða úrslitum. Leikið var í Ungverjalandi.
- Auglýsing -