- Auglýsing -
- Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði eitt mark í þremur skotum þegar lið hennar BSV Sachsen Zwickau gerði jafntefli, 27:27, á heimavelli í gær gegn Werder Bremen í þýsku 2. deildinni í handknattleik á heimavelli. Um var að ræða frestaðan leik úr fjórðu umferð. BSV Sachsen Zwickau var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14. Liðið var með boltann undir lokin en því miður þá nægði það ekki til þess að skorað sigurmarkið.
- BSV Sachsen Zwickau er í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig eftir níu leiki og er tveimur stigum á eftir Füchse Berlin sem er í efsta sæti. SG H2Ku Herrenberg er í öðru sæti stigi á undan Díönu Dögg og samherjum. Næsti leikur BSV Sachsen Zwickau verður ekki fyrr en 3. janúar gegn Nürtingen.
- Philippe Bana var í gær kjörinn forseti franska handknattleikssambandsins. Bana er fyrrverandi markvörður og lék lengst af með Marseille. Síðustu ár hefur Bana verið starfsmaður sambandsins. Auk Bana voru Jean-Pierre Feullan og Oliver Girault fyrrverandi landsliðsmaður í framboði. Bana hlaut um 58% atkvæða. Formaður sambandsins síðustu 12 ár, Joel Delplanque, gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
- Ungverjar unnu Svía, 28:27, í fyrri vináttuleik þjóðanna í handknattleik kvenna í gær. Leikið var í Trollhättan. Lið þjóðanna mætast aftur í dag á sama stað. Leikirnir eru liður í undirbúningi fyrir EM sem hefst í Danmörku á fimmtudaginn.
- Rikke Poulsen, markvörður Esbjerg, var í gær kölluð inn í danska landsliðið í handknattleik vegna þess að Sandra Toft markvörður er meidd. Poulsen á að baki 72 landsleiki en hún hefur ekki verið í danska landsliðinu í fjögur ár. Toft, sem leikur með Brest Bretagne er ekki alvarlega meidd en Jesper Jensen, landsliðsþjálfari Dana, vill hafa vaðið fyrir neðan sig og bætir þar með þriðja markverðinum í hóp sinn.
- Danska landsliðið leikur við landslið Slóveníu í fyrstu umferð riðlakeppninnar á föstudaginn.
- Auglýsing -