- Auglýsing -
- Kristianstad HK, sem Berta Rut Harðardóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir leika með, vann Önnereds, 33:28, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Sigurinn var óvæntur og kærkominn, ekki síst vegna þess að liðin eru á ólíkum stað í deildinni. Kristianstad HK hefur verið í basli og situr nú í 9. sæti en Gautaborgarliðið er í fjórða til fimmta sæti ásamt Skara HF sem Aldís Ásta Heimisdóttir leikur með.
- Jóhanna Margrét skoraði eitt mark í gær fyrir Kristianstad HK en Berta Rut ekkert.
- Spænski handknattleiksmaðurinn Aitor Ariño hefur samið við þýska liðið Füchse Berlin frá og með komandi sumri. Ariño, sem er 32 ára gamall, hefur leikið með Barcelona um langt árabil. Hann á að koma í stað Jerry Tollbring sem sleit krossband í haust og leikur ekki oftar fyrir félagið. Þegar Tollbring meiddist samdi Berlínarliðið til skamms tíma við Manuel Štrlek.
- Sænski landsliðsmaðurinn Hampus Wanne ætlar að taka óvæntan snúning á ferli sínum í sumar. Hann hefur ákveðið að ganga til liðs við danska liðið Høj Elite sem leikur í næst efstu deild. Wanne, sem er 31 árs gamall vinstri hornamaður hefur undanfarin á leikið með Barcelona og þar áður var hann hjá Flensburg. Vonir standa til þess að Høj Elite leiki í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Hans Lindberg fyrrverandi landsliðsmaður Dana er á meðal leikmanna Høj Elite.
- Norðmaðurinn Arne Senstad hefur skrifað undir nýjan samning við pólska handknattleikssambandið um þjálfun kvennalandsliðsins. Senstad tók við þjálfun landsliðsins 2019 og þykir hafa gert það gott. Síðustu tvö árin hefur hann þjálfað kvennalið Larvik samhliða þjálfun pólska landsliðsins.