- Auglýsing -
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tvö mörk fyrir Önnereds þegar liðið vann IFK Kristianstad, 33:16, í sænsku bikarkeppninnar í gær. Leikurinn fór fram í Kristianstad. Þetta var fyrsti leikur Önnereds í keppninni á nýrri leiktíð. Um leið var þetta fyrsti opinberi kappleikur Jóhönnu Margrétar með Gautaborgarliðinu en hún gekk til liðs við það í sumar frá HK.
- Kristján Ottó Hjálmsson, leikmaður HK, var valinn besti sóknarmaður UMSK-mótsins sem leitt var til lykta á síðasta miðvikudag. Kristján Ottó skoraði 16 mörk í þremur leikjum. Daninn Theis Koch Søndergard úr Gróttu var valinn besti varnarmaður mótsins og Stjörnumaðurinn Arnór Freyr Stefánsson skaraði fram úr öðrum markvörðum mótsins.
- Tryggvi Þórisson skoraði eitt mark þegar IK Sävehof vann Rimbo HK Roslagen, 41:30, í sænsku bikarkeppninni í handknattleik í gær. Þar með er ljóst að IK Sävehof vinnur sinn riðil á fyrsta stigi bikarkeppninnar og tekur sæti í næstu umferð.
- Guðmundur Bragi Ástþórsson var ekki í leikmannahópi ASV Hamm-Westfalen í síðasta leik liðsins á æfingamóti (Linden Cup) í Þýskalandi í gær. Hamm lék þá við Hüttenberg og vann, 28:26. Guðmundur var með Hamm í tveimur fyrstu leikjum mótsins, gegn Wetzlar á fimmtudaginn og á móti Arnóri Þór Gunnarssyni og félögum í Bergischer á föstudaginn.
- Það hitnaði í kolunum í æfingaleik þýska 2. deildarliðsins HSG Konstanz og svissneska meistaraliðsins Kadetten Schaffhausen fyrir helgina. Áður en leiknum var lokið höfðu tveir leikmennn Kadetten fengið rautt auk þjálfarans Aðalsteins Eyjólfssonar. Kadetten vann leikinn með eins marks mun, 33:32.
- Í dag leikur Kadetten við GC Amicitia Zürich í meistarakeppninni í Sviss. Ólafur Andrés Guðmundsson leikur með GC Amicitia Zürich og ekki má gleyma Óðni Þór Ríkharðssyni leikmanni Kadetten sem farið hefur á kostum í æfingaleikjum liðsins upp á síðkastið.
- Íslands- og bikarmeistarar Vals unnu Gróttu, 39:33, í æfingaleik í gær. Valsmenn voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:17. Allir leikmenn Vals komu við sögu í leiknum nema Þorgils Jón Svölu Baldursson sem var hvíldur eins og í leiknum gegn Fram fyrr í vikunni.
- Auglýsing -