- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Karabatic, Hoberg, Polman, Kuzmanović, Paczkowski

Frakkinn Nikola Karabatic er af mörgum álitinn besti handknattleiksmaður sögunnar. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Nikola Karabatic tilkynnti fyrir helgina að hann leiki kveðjuleik sinn með PSG þegar liðið mætir PAUC í lokaumferð frönsku 1. deildarinnar í Accor Arena í Bercy þar sem íslenska karlalandsliðið vann úrslitaleik B-heimsmeistaramótsins fyrir 35 árum. Karabatic stendur á fertugu og er að margra mati besti handknattleikskarl sögunnar. Hann ætlar að kveðja sviðið með franska landsliðinu á Ólympíuleikunum í heimalandinu í ágúst. Reiknað er með að 20 þúsund áhorfendur verði á kveðjuleiknum með PSG í Bercy í lok maí.
  • Danska handknattleikskonan Ida Margrethe Hoberg sem lék með KA/Þór síðari hluta keppnistímabilsins 2022/2023 hefur framlengt samning sinn við þýska handknattleiksliðið BlombergLippe til eins árs, út leiktíðina sem lýkur um mitt næsta ár. Hoberg gekk til liðs við Blomberg-Lippe eftir dvölina á Akureyri og hefur gert það gott í vetur. Hún verður á meðal samherja Díönu Daggar Magnúsdóttir á næstu leiktíð. 
  • Hollenska landsliðskonan Estavana Polman kveður hollenska landsliðið í leikjum gegn Portúgal og Finnlandi í undankeppni EM á næstu dögum. Polman var kjölfesta hollenska landsliðsins þegar það varð heimsmeistari 2019 í Japan og besti leikmaður mótsins. Hún sleit krossband sumarið 2020 og hefur vart borið sitt barr síðan. Polman leikur um þessar mundir með Rapid Búkarest út leiktíðina en óvíst er hvað tekur síðan við. 
  • Hinn ungi króatíski landsliðsmarkvörður, Dominik Kuzmanović, er sagður vera undir smásjá Guðjóns Vals Sigurðssonar þjálfara Gummersbach. Kuzmanović, sem er 21 árs gamall, vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína með króatíska landsliðinu á EM í janúar. Í forkeppni Ólympíuleikanna í nýliðnum mánuði undirstrikaði hann styrk sinn með vasklegri framgöngu og árverkni í króatíska markinu. Kuzmanović leikur með RK Nexe í heimalandi sínu. 
  • Handknattleiksmaðurinn Paweł Paczkowski leggur ekki árar í bát þótt pólska meistaraliðið Indurstria Kielce vilji ekkert meira með hann hafa að loknu keppnistímabilinu sem brátt endar. Paczkowski hefur skrifað undir samning við japanska liðið Brave Kings frá og með haustinu.
  • Blásið verður til sóknar í japönskum handknattleik frá og með næsta keppnistímabili og komið á atvinnumannadeild í karlaflokki. Undirbúningur hefur staðið yfir í rúm tvö ár. Paczkowski hefur marga fjöruna sopið á síðustu árum. Hann stendur á þrítugu en hefur þegar leikið með félagsliðum í fimm löndum. Japan verður það sjötta á listanum. 
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -