- Auglýsing -
- Karlotta Kjerúlf Óskarsdóttir hefur verið lánuð til Olísdeildarliðs Selfoss frá Val út keppnistímabilið. Karlotta er tvítug og örvhent og getur bæði leikið í skyttustöðunni hægra megin og í hægra horni. Karlotta er komin með leikheimild og lék sinni fyrsta leik með liðinu í gær gegn KA/Þór. Hún skoraði sjö mörk í átta skotum í fjögurra marka tapi, 32:28.
- Skara HF vann í gær annan leikinn í röð í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna þegar leikmenn Kungälvs komu í heimsókn og fóru með skottið á milli lappanna heim. Lokatölur, 26:23, fyrir Skara sem var marki undir eftir fyrri hálfleik, 12:11. Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði tvö mörk fyrir Skara en Ásdís Guðmundsdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoruðu ekki að þessu sinni. Jóhanna Margrét átti eina stoðsendingu. Skara HF og Kungälvs eru jöfn í sjöunda og áttunda sæti með 12 stg hvort lið eftir 13 umferðir.
- Marit Breivik, sem þjálfaði norska kvennalandsliðið í handknattleik á undan Þórir Hergeirssyni fékk heiðursverðlaun norska íþróttasambandsins á Idrettsgallaens sem haldin var í Hamri í gærkvöld. Áður en Breivik sneri sér að þjálfun lék hún handknattleik um langt árabil, m.a. tók hún þátt í 139 landsleikjum og skoraði í þeim 286 mörk. Breivik var landsliðsþjálfari frá 1994 til 2008 og vann alls 13 verðlaun á stórmótum á þeim tíma.
- Eins og handbolti.is sagði frá í gærkvöld var Þórir útnefndur þjálfari ársins við sama tilefni.
- Svíinn Robert Hedin tekur við þjálfun norska karlaliðsins Fjellhammer í sumar. Honum er ætlað það hlutverk að gera liðið eitt af þeim allra bestu í norsku úrvalsdeildinni. Hedin er núverandi landsliðsþjálfari Bandaríkjanna en hefur komið víða við á þjálfaraferlinum. M.a. var Hedin landsliðsþjálfari Noregs í karlaflokki frá 2008 til 2014. Einnig þjálfaði hann Nøtterøy um skeið meðan liðið lék í úrvalsdeildinni.
- Auglýsing -