- Auglýsing -

Molakaffi: Khairy, Larsen, Horvat, Møller, Kuduz

- Auglýsing -
  • Forráðamenn þýska 1. deildarliðsins SC DHfK Leipzig ætla ekki að láta sér nægja að semja við Blæ Hinriksson eftir brotthvarf Andra Más Rúnarssonar. Þeir eru sagðir komnir vel á veg með að semja við Egyptann Ahmed Khairy, leikstjórnanda egypsku meistaranna Al Ahly. Khairy er þrítugur og þykir snjall miðjumaður með reynslu frá Evrópu. Khairy var í herbúðum Dinamo Búkarest um skeið áður en hann samdi við Al Ahly fyrir þremur árum.
  • Jan Larsen, hinn þrautseigi framkvæmdastjóri danska meistaraliðsins Aalborg Håndbold, segir félagið aldrei hafa haft á að skipa eins verðmætu liði og um þessar mundir. Fyrir vikið er stefnan sett hátt, m.a. á sæti í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar næsta vor. Aalborg Håndbold hefur tvisvar leikið til úrslita í Meistaradeildinni, 2021 og 2024.
  • Króatinn Ivan Horvat sem var dæmdur í 26 mánaða keppnisbann í Austurríki í vor fyrir mjög grófan leik hefur samið við HSG XeNTiS Lipizzanerheimat, sem eitt sinn nefndist Bärnbach/Köflach. Horvat var laus undan samningi hjá Alpla Hard í vor eftir að félagið hafði barist fyrir styttingu leikbannsins. Bannið var stytt í 12 mánuði, þar af sex mánuði skilorðbundnir. Þar af leiðandi verður Horvat klár í slaginn með XeNTiS Lipizzanerheimat þegar kemur fram í nóvember.
  • Danskir fjölmiðlar velta vöngum yfir því hvort landsliðsmarkvörðurinn Kevin Møller, yfirgefi Flensburg næsta sumar, ári áður en samningur hans rennur út. Møller, sem er 36 ára gamall, hefur staðið vaktina í marki Flensburg frá 2014 að árunum 2018 til 2021 undanskildum er hann var hjá Barcelona. Hermt er að fjölskylduástæður gætu knúið Møller til þess að flytja heim að ári liðinu.
  • Hvað sem framtíð Kevin Möller líður þá er því haldið fram víða að Flensburg ætli sér að semja við rúmenska hornamanninn Ante Kuduz á næstu dögum. Kuduz er þrítugur og hefur verið með Dinamo Búkarest í sjö ár, að einu ári undanskildu, 2021/2022, er hann reyndi fyrir sér hjá HC Vardar í Norður Makedóníu.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -