- Auglýsing -
- Kristín Guðmundsdóttir þjálfari HK U í Grill 66-deild kvenna var í gær úrskurðuð í eins leiks bann á fundi aganefndar HSÍ. Kristín hlaut útilokun með skýrslu vegna mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar í leik HK U og Víkings í Grill 66-deild kvenna á síðasta sunnudag. Dómarar mátu að brotið falli undir reglu 8:10 a).
- Stefán Friðrik Aðalsteinsson starfsmaður Fjölnis var einnig úrskurðaður í eins leik bann á fundi aganefndar. Stefán Friðrik hlaut útilokun með skýrslu vegna mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar í leik Selfoss U og Fjölnis í Grill 66-deild karla í Sethöllinni á síðasta föstudag. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:10 b).
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson skorað fjögur mörk og þótti leika afar vel fyrir IFK Skövde í gærkvöld þegar liðið vann Redbergslid á útivelli, 27:26. Skövde er í áttunda sæti deildarinnar með 18 stig eftir 20 leiki, átján stigum á eftir IFK Kristianstad sem situr sem fyrr í efsta sæti.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður varði 14 skot, 31%, í marki Ringkøbing Håndbold í átta marka tapi á heimavelli fyrir Esbjerg, 35:27, í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Ringkøbing er í 11. sæti deildarinnar af 14 liðum.
- Steinunn Hansdóttir skoraði tvö mörk fyrir Skanderborg Håndbold í sex marka tapleik á heimavelli þegar leikmenn Viborg HK komu í heimsókn í gær, 37:31. Skanderborg er í 13. og næst neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.
- Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Volda þegar liðið tapaði fyrir Storhamar, 39:21, á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Rakel Sara Elvarsdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir skoruðu ekki mark í leiknum. Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari Volda og Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar sem er í öðru sæti deildarinnar. Volda rekur lestina.
- Alexandra Líf Arnarsdóttir skoraði tvö fyrir Fredrikstad Bkl. þegar liðið tapaði fyrir Noregs- og Evrópumeisturum Vipers Kristiansand, 46:27, í Kristiansand í gær. Elías Már Halldórsson er þjálfari Fredrikstad Bkl. sem er í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar í Noregi.
- Íslendingaslagur verður í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í Lanxess-Arena í Köln 15. apríl þegar Flensburg og Rhein-Neckar Löwen eigast við. Teitur Örn Einarsson leikur með fyrrnefnda liðinu en Ýmir Örn Gíslason með því síðarnefnda.
- Í hinni viðureign undanúrslita eigast við SC Magdeburg, með Gísla Þorgeir Kristjánsson innanborðs, og Lemgo. Sigurliðin í undanúrslitum mætast í úrslitaleik 16. apríl.
- Silje Solberg markvörður norska landsliðsins og ungverska meistaraliðsins Györ leikur ekki fleiri leiki á tímabilinu. Hún skýrði frá því í gær að hún eigi von á sínu fyrsta barni í ágúst. Solberg hefur um árabil verið annar markvörður norska landsliðsins og varð m.a. Evrópumeistari með liðinu í lok nóvember. Sanna, tvíburasystir Silje, eignaðist dóttur 23. janúar. Sanna er einnig norsk landsliðskona.
- Tilkynnt var í gær að Frakkinn Nedim Remili hafi skrifað undir þriggja og hálfs árs samning við ungverska liðið Veszprém. Remili hafði verið orðaður við Veszprém síðustu daga, bæði vegna meiðsla Yahia Omar og sökum bágrar fjárhagsstöðu Kielce í Póllandi sem Remili hefur leikið með síðan í haust.
- Auglýsing -