- Auglýsing -
- Kristinn Björgúlfsson, sem tók við stöðu framkvæmdastjóra handknattleiksdeildar ÍR í upphafi ársins, hefur látið af störfum, segir í tilkynningu handknattleiksdeildar ÍR í gær. „Framkvæmdastjórastaða handknattleiksdeildar var búin til sem tilraunaverkefni til að athuga hvort grundvöllur væri fyrir starfinu, og til að létta á sjálfboðaliðastörfum innan félagsins. Ljóst er að sá grundvöllur er til staðar og hefst nú leit að nýjum framkvæmdastjóra handknattleiksdeildar,“ segir ennfremur í tilkynningunni um leið og Kristni eru þökkuð góð störf.
- Þýsku handknattleiksliðin eru eitt af öðru að hefja æfingar eftir sumarleyfi. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari Gummersbach kallaði sína lærisveina til fyrstu æfingar í gær. Í tilkynningu frá félaginu er m.a. haft eftir Guðjóni Val að æfingin hafi ekki verið erfið. Mestu hafi skipt að menn hafi komið saman eftir nokkra vikna fjarveru og náð um leið að snerta aðeins á bolta. Tveir íslenskir handknattleiksmenn eru hjá Gummersbach, Hákon Daði Styrmisson og Elliði Snær Viðarsson.
- U19 ára landslið Íslands í handknattleik kvenna mætir landsliði Serbíu í leik um 13. sætið á Evrópumótinu í Rúmeníu klukkan 12.15. í dag. Um er að ræða sjöunda og síðasta leik liðanna á mótinu. Þátttökuréttur á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða er í boði fyrir sigurliðið. Tapliðið fer í undankeppni í nóvember ásamt þremur liðum til viðbótar þar sem bitist verður um eitt sæti á heimsmeistaramótinu.
- Handbolti.is ætlar að fylgjast með viðureign Íslands og Serbíu í textalýsingu eins og gert hefur verið með aðra leiki íslenska landsliðsins á EM í Rúmeníu. Eins og áður segir hefst viðureignin klukkan 12.15 í dag.
- Jan Larsen framkvæmdstjóri danska úrvalsdeildarliðsins Aalborg Håndbold segir þá stöðu sem komin er upp hjá norska meistaraliðinu Kolstad nánast óskiljanlega. Larsen hefur staðið í stafni hjá danska liðinu árum saman og marga fjöruna sopið. Hann segir að enn einu sinni komi í ljós að Róm hafi ekki verið reist á einni nóttu. Það taki nokkur ár að byggja upp öflugt handknattleikslið auk þolinmæði, blóðs, svita og tára.
- Komið hefur fram í fréttum í vikunni að mikill niðurskurður launakostnaðar stendur fyrir dyrum hjá Kolstad, svo nemur tugum prósenta. Einnig er félagið sagt skulda leikmönnum launauppbætur fyrir meistaratitlana þrjá sem liðið vann á liðinni leiktíð.
- Þrátt fyrir að vera í banni frá alþjóðlegri keppni þá ætlar rússneska karlalandsliðið í handknattleik að koma saman til æfinga í Sotsjí í 10 daga í lok þessa mánaðar og í byrjun ágúst. Velimir Petkovic landsliðsþjálfari hefur valið fjölmennan hóp leikmanna til æfinganna, m.a. nokkra nýliða. Allir leikmennirnir eru samningsbundnir rússneskum félagsliðum. Stefnt er á aðrar æfingabúðir í haust eða í byrjun vetrar og þá stendur til að leika vináttuleiki við Hvíta-Rússland sem í seinni tíð er æ oftar nefnt Belarús á íslensku.
- Auglýsing -