- Auglýsing -
- Lovísa Thompson og nýir samherjar hennar í Ringkøbing Håndbold höfnuðu í öðru sæti á æfingamóti í St Gallen í Sviss sem lauk í gær. Ringkøbing Håndbold tapaði fyrir franska liðinu Dijon í úrslitaleik, 24:23.
- Sandra Erlingsdóttir lék með þýska liðinu Metzingen á sama móti. Hafnaði þýska liðið í þriðja sæti. M.a. skildu Ringkøbing Håndbold og Metzingen jöfn, 33:33, í hörkuleik. Sandra skoraði tvö mörk í leiknum við Ringkøbing og einnig tvö mörk í sigri á LC Brühl í gær, 39:29.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 7/2 mörk þegar svissneska liðið Kadetten vann danska meistaraliðið GOG, 33:32, eftir vítakeppni á æfingamóti, Heide-cup, í fyrradag. Hann skoraði síðan 6/2 í gær þegar Kadetten vann Wetzlar, 33:29. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten sem leikur næst á móti Ólafi Andrési Guðmundssyni og samherjum í GC Amicitia Zürich í meistarakeppninni í Sviss á næsta sunnudag. Kadetten er ríkjandi meistari í Sviss.
- HSV Hamburg vann mótið sem getið er um hér að ofan eftir að hafa lagt Viggó Kristjánsson og félaga í vítakeppni sem ætlaði aldrei að fá enda. Leiknum lauk 46:45.
- Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson þrjú þegar lið þeirra, þýska meistaraliðið SC Magdeburg, vann dönsku bikarmeistarana Aalborg Håndbold, 32:29, í úrslitaleik í Arendal í Noregi í gær. Ekki lágu á lausu upplýsingar í gærkvöld hvort Aron Pálmarsson skoraði mark fyrir Aalborg.
- Rúmenska handknattleikskonan Melinda Geiger hefur óvænt tekið skóna ofan af hillu og dustað af þeim rykið. Þrjú ár er liðin síðan Geiger hætti. Hún hefur samið við Baia Mare í heimalandi sínu. Áður en hún hætti þá lék Geiger með Siofok og þar áður með Brest í Frakklandi.
- Auglýsing -