- Auglýsing -
- Spánverjinn Jorge Maqueda hefur ákveðið að gefa ekki oftar kost á sér í spænska karlalandsliðið í handknattleik. Maqueda hefur meira og minna leikið með spænska landsliðinu í 14 ár og unnið á þeim tíma til 10 verðlauna á stórmótum, m.a. gull á EM og HM.
- Þýski landsliðsmaðurinn Rune Dahmke og norska landsliðskonan Stine Bredal Oftedal létu pússa sig saman í vikunni eftir því sem þýskir fjölmiðlar greina frá. Bæði unnu þau til verðlauna á Ólympíuleikunum sem lauk um síðustu helgi. Oftedal lék um leið sinn síðasta handboltaleik. Dahmke ætlar á hinn bóginn að halda áfram að leika með THW Kiel og þýska landsliðinu.
- Domagoj Duvnjak fyrirliði króatíska landsliðsins segir að ef hann verður valinn í landsliðið fyrir HM á næsta ári þá verði það hans síðasta stórmót landsliða. Duvnjak, sem er 36 ára og leikur með THW Kiel, segist hafa rætt við Dag Sigurðsson landsliðsþjálfara og sagt honum m.a. að ef þörf verði á kröftum sínum á HM, sem fram fer að hluta til í Króatíu, þá muni hann svara kallinu. Eftir mótið verður endi bundinn á landsliðsferilinn. Duvnjak hefur leikið 260 landsleiki og skorað í þeim 782 mörk.
- Ludvig Hallbäck nýr leikstjórnandi Göppingen og samherji Ýmis Arnar Gíslasonar leikur ekki með liðinu næstu vikunar eftir að hafa meiðst á hné í æfingaleik við HSC 2000 Coburg á dögunum.
- Rúmenska meistaraliðið CSM Búkarest hefur samið við ungversku handknattleikskonuna Noemi Pasztor. Hún á að leysa af norsku landsliðskonuna Vilde Ingstad sem sleit krossband í leik á Ólympíuleikunum og verður þar af leiðandi frá keppni næsta árið. Pasztor kemur til CSM frá Mosonmagyarovari KC í Ungverjalandi.
- Auglýsing -