- Sífellt betri árangur Gummersbach undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar hefur að sama skapi aukið til muna áhuga fyrir árskortum á heimaleiki liðsins. Í gær var tikynnt að þegar hafi rétt rúmlega 3.000 ársmiðar verðið seldir, um 1.000 fleiri en á sama tíma í fyrra.
- Gummersbach varð í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð og tryggði sér þar með sæti í Evrópukeppni félagsliða í fyrsta sinn í 12 ár. Flest bendir m.a. til að Gummersbach mæti FH í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þýska liðið þarf reyndar að ljúka einni umferð í forkeppni áður en góðar líkur eru fyrir að Gummersbach ryðji þeirri hindrun úr vegi.
- Það á ekki af norska landsliðsmanninum Gøran Søgard Johannessen að ganga um þessar mundir. Hann sleit hásin í apríl og gat þar af leiðandi ekki tekið þátt í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna með landsliðinu. Johannessen hefur síðustu mánuði verið í endurhæfingu og stóðu vonir til þess að á haustmánuðum mætti hann til leiks á ný með norska meistaraliðinu Kolstad. Af því verður ekki því nú er komið í ljós að hásinin sem slitnaði í vor er slitin á ný.
- Hin margreynda svartfellska handknattleikskona, Jovanka Radicevic, ætlar að leggja keppnisskóna á hilluna næsta sumar þegar samningurinn við Krim Ljubljana rennur út. Hún sagði frá ákvörðun sinni á dögunum. Radicevic hætti að leika með landsliðinu eftir EM 2022 þegar Svartfellingar unnu bronsverðlaun. Radicevic er ein markahæsta handknattleikskona í sögu Meistaradeildar Evrópu, svo dæmi sé tekið. Hún verður 37 ára í lok október.
- Óðinn Þór Ríkharðsson og liðsfélagar í svissneska meistaraliðinu Kadetten Schaffhausen unnu RK Nexe, 33:27, í æfingaleik leik í gær. Nexe var yfir, 13:11, að loknum fyrri hálfleik. Óðinn Þór skoraði 10 mörk, þar af þrjú úr vítaköstum.
- Norskur handknattleiksmaður, Lasse Balstad sem leikur undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar hjá Fredericia, hefur ákveðið að endurnýja ekki samning sinn við félagið þegar núverandi samningur rennur út næsta vor. Hermt er að Balstad ætli að færa sig yfir Litlabeltisbrúna og yfir á Fjón leika með GOG frá og með haustinu 2025.
- Auglýsing -