- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Navarro Darmoul, Trtik, Delta, Bauer

Silvia Navarro, hinn frábæri markvörður spænska landsliðsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Silvia Navarro landsliðsmarkvörður Spánar í handknattleik kvenna hefur framlengt samning sinn við BM Remudas til eins árs, fram á mitt næsta ár. Navarro er 42 ára gömul og hefur verið ein sú besta í sinni stöðu um langt árabil. Hún á 214 landsleiki að baki og er nú á leið á Ólympíuleikana í Tókýó með spænska landsliðinu. 
  • GWD Minden hefur staðfest að Túnisbúinn Amine Darmoul kom til félagsins í sumar og leysi af leikstjórnandann og landsliðsmanninn Juri Knorr sem verður liðsmaður Rhein-Neckar Löwen frá og með næsta keppnistímabili.
  • Rastislav Trtik hefur framlengt samning sinn um þjálfun karlalandsliðs Tékka fram yfir EM 2022 sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu  í janúar á næsta ári. Trtik tók tímabundið við þjálfun landsliðsins snemma árs eftir að spilin voru stokkuð upp hjá Tékkum eftir uppákomu sem varð í kringum landsliðið fyrir HM þegar landsliðsmenn veiktust í aðdraganda mótsins með þeim afleiðingum að Tékkar urðu að draga lið sitt úr keppni á elleftu stundu. Þáverandi landsliðsþjálfurum var kennt um hversu illa fór. Var þeim sagt upp auk þess sem öll stjórn tékkneska handknattleikssambandsins sagði af sér. Ný stjórn tók við í framhaldinu sem m.a. réði Trtik til starfa. Trtik þjálfaði karlalandslið Tékka um árabil á fyrsta áratug aldarinnar en hefur síðan víða komið við í félagsþjálfun, m.a. í Þýskalandi og Slóvakíu
  • U19 ára landslið Portúgal í handknattleik kvenna hefur dregið sig úr keppni á Evrópumeistaramóti kvenna sem hefst í Slóveníu í dag. Kórónuveiran gerir mönnum gramt í geði í Portúgal um þessar mundir og nokkrir leikmenn liðsins hafa veikst þar sem þeir voru í æfingabúðum. Hið svokallaða Delta-afbrigði veirunnar hefur skotið upp kollinum víða í Portúgal síðustu daga og vikur. 
  • Austurríski handknattleiksmarkvörðurinn Thomas Bauer verður ekki áfram í herbúðum AEK Aþenu eftir að liðið fagnaði meistaratitli í Grikklandi fyrr í vikunni. AEK varð einnig grískur bikarmeistari og vann líka Evrópubikarkeppnina (áður Áskorendabikarinn) í vor. Ekki hefur verið upplýst hvert Bauer heldur nú. Hann lagði landsliðsskóna á hilluna í vor.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -