- Þorbjörg Gunnarsdóttir, Obba, liðsstjóri kvennalandsliðsins í handknattleik mun að vanda standa vaktina með kvennalandsliðinu heimsmeistaramótinu sem hefst í lok mánaðarins. Obba var einnig liðsstjóri landsliðsins síðast þegar það tók þátt í HM fyrir 12 árum í Brasilíu. Hún hefur reyndar fylgt landsliðinu eftir sem liðsstjóri um langt árabil og ævinlega með allt sitt á hreinu.
- Obba, Þórey Rósa Stefánsdóttir leikmaður og Ágúst Þór Jóhannsson er þau einu úr HM hópnum 2011 sem verða í HM hópnum 2023. Ágúst er nú aðstoðarþjálfari en hann var landsliðsþjálfari fyrir 12 árum.
- Berta Rut Harðardóttir og samherjar hennar í Kristianstad HK töpuðu fyrir Kungälvs HK, 22:21, í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í gær. Berta Rut skoraði tvö mörk. Síðari leikurinn fer fram í Kristianstad á laugardaginn. Samanlagður sigurvegari í leikjunum tveimur tekur sæti í undanúrslitum.
- Framarinn Þorsteinn Gauti Hjálmarsson varð því miður að draga sig út úr finnska landsliðinu í handknattleik vegna meiðsla á hægri handlegg. Finnska landsliðið mætir landsliði Bretlands í tveimur leikjum í forkeppni HM 2025. Fyrri viðureignin verður í dag en sú síðari á laugardaginn. Gauti hefur leikið sex leiki með finnska landsliðinu á árinu og hefur skorað í þeim 16 mörk.
- Tíu landslið voru skráð til leiks í forkeppninni en ísraelska liðið tekur ekki þátt eins og til stóð. Þar af leiðandi er landslið Lúxemborgar komið áfram á næsta stig undankeppni HM.
- Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur sektað rúmenska handknattleiksliðið, Rapid Búkarest um 2.000 evrur, tæplega 300 þúsund króna, vegna í óviðunandi hegðunar stuðningsmanna liðsins meðan á viðureign Rapid og Krim Ljubljana í Meistaradeild Evrópu stóð yfir í lok mars á þessu ári. Einnig var rúmenska liðið aðvarað vegna þess að það sá ekki til þess að taka frá VIP-sæti á leiknum fyrir forráðamenn Krim.
- Auglýsing -