- Odense Håndbold var danskur meistari í handknattleik kvenna í gærkvöld, annað árið í röð. Odense vann Team Esbjerg, 25:24, á heimavelli í oddaleik liðanna. Esbjerg var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11, hafði einnig þriggja marka forskot þegar síðari hálfleikur var hálfnaður, 20:17. Althea Reinhardt, markvörður Odenseliðsins, varði eins og berserkur undir lokin og átti stóran þátt í að liðinu tókst að snúa við taflinu. Mette Tranborg gat jafnaði metin á síðustu sekúndum en skot hennar geigaði.
- Leikmenn Esbjergliðsins fá ekki langan tíma til þess að sleikja sárin því þeir leika til undanúrslita í Meistaradeild Evrópu í Búdapest á laugardaginn. Esbjerg varð síðasta danskur meistari vorið 2020 en þá lék Rut Arnfjörð Jónsdóttir nú leikmaður KA/Þórs með liðinu.
- Herning-Ikast hafnaði í þriðja sæti í dönsku úrvalsdeildinni í kvennaflokki. Herning-Ikast vann Viborg á heimavelli, 29:21, í oddaleik í gærkvöld.
- Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau leika í kvöld fyrri umspilsleikinn við Göppingen um keppnisrétt í þýsku 1. deildinni í handknattleik á næsta keppnistímabili. Síðari viðureignin verður í Göppingen á laugardaginn.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði fjögur mörk og átti tvær stoðsendingar samkvæmt tölfræði síðu þýsku 2. deildarinnar í handknattleik þegar lið hans, Coburg, vann góðan sigur á Nordhorn, 31:28, á heimavelli í gærkvöld en liðið býður upp á eina glæsilegustu umgjörð um leiki sína sem í boði er í deildinni. Coburg er í 11. sæti deildinnar af 20 liðum með 35 stig þegar tvær umferðir eru eftir óleiknar.
- Tap Nordhorn varð til þess að möguleikar Hamm-Westfalen á að krækja í annað sætið glæðast. Hamm-Westfalen hefur aðeins leikið einu sinni í efstu deild, keppnistímabilið 2010/2011. Þá var Einar Hólmgeirsson í herbúðum liðsins.
- Stjórnendur þýska handknattleiksliðsins TV Emsdetten hafa beðið stuðningsmenn félagsins afsökunar á því að liðið er fallið í 3. deild en það féll úr deildinni um síðustu helgi. Í bréfinu er því jafnframt heitið að bitið verði í skjaldarrendur og allt lagt í sölurnar til að endurheimta sæti í 2. deild að ári liðnu. Tveir Íslendingar leika með Emsdetten, Anton Rúnarsson og Örn Vésteinsson Östenberg. Anton kom til félagsins fyrir keppnistímabilið en Örn eftir áramót.
- Auglýsing -