- Auglýsing -
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði átta mörk, þar af þrjú úr vítaköstum, og var markahæstur hjá Kadetten Schaffhausen í öruggum sigri á HSC Suhr Aarau, 36:27, í Aarau í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gær. Kadetten Schaffhausen er í efsta sæti deildarinnar með 13 stig eftir sjö leiki, þremur stigum á undan HC Kriens.
- Haukur Þrastarson skoraði fjögur mörk fyrir Kielce í öruggum sigri á Azoty Pulawy, 39:23, í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Þetta var þriðji leikurinn í röð hjá Hauki með Kielce í pólsku deildinni eftir að hann mætti til leiks á ný eftir krossbandaslit.
- Hákon Daði Styrmisson skoraði sex mörk og var markahæstur hjá Eintracht Hagen í sex marka sigri liðsins á útivelli gegn Ludwigshafen í þýsku 2. deildinni í gær. Sigurinn var Hagen-liðinu afar kærkominn enda hafði liðið aðeins unnið einn leik af fjórum mögulegum fyrir viðureignina í Ludwigshafen.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður og samherjar hennar í EH Aalborg unnu sinn þriðja leik í næst efstu deild danska handknattleiksins í gær. EH Aalborg fór til Hróarskeldu og lagði lið Roskilde Håndbold, 31:23.
- Elías Már Halldórsson fagnaði sigri með Fredrikstad Bkl., gegn Byåsen, 33:26, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna í gær á heimavelli. Fredrikstad Bkl. situr í fimmta sæti deildarinnar með átta stig eftir sex leiki, fjórir sigrar og tvö töp. Elías Már er þriðja tímabilið í stóli þjálfara Fredrikstad Bkl.
- Dana Björg Guðmundsdóttir var markahæst hjá Volda með sex mörk þegar liðið vann Fjellhammer í Volda Campus Sparebank1 Arena keppnishöllinni glæsilegu í gær, 28:24. Birta Rún Grétarsdóttir var ekki í leikmannahópi Fjellhammer að þessu sinni. Volda er efst í deildinni með átta stig eftir fjóra leiki. Flint Tønsberg er einnig taplaust en hefur aðeins leikið þrisvar sinnum.
- Tryggvi Þórisson var ekki í leikmannahópi IK Sävehof í gær þegar liðið tapað fyrir Hammarby í toppslag sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik, 33:34. Leikurinn fór fram í Partille, heimavelli IK Sävehof. Hvorugt liðið hafði tapað þegar kom að leiknum í gær. Hammarby er nú efst með átta stig eftir fjóra leiki. Amo hefur sex stig eftir þrjá leiki í öðru sæti og sækir Hallby heim síðdegis í dag.
Staðan á einni síðu
Hægt að kynna sér stöðuna í mörgum deildum evrópska handknattleiksins á sérstakri stöðusíðu sem sett hefur verið upp undir flipanum staða og leikir og m.a. má nálgast hér.
- Auglýsing -