- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Ólafur, Sunna, Harpa, Bjarki, Sveinn, Halldór, Roland, Hannes

Ólafur Andrés Guðmundsson er einn Íslendinga hjá HF Karlskrona. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Ólafur Andrés Guðmundsson lék með GC Amicitia Zürich í fyrsta sinn í langan tíma í gær í svissnesku A-deildinni í handknattleik. Hann skoraði tvö mörk í sigri á Pfadi Winterthur, 26:23, á heimavelli, eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik, 16:13. Ólafur hefur verið frá keppni síðan hann fékk þungt högg á annað lærið á fyrstu æfingu íslenska landsliðsins eftir að það kom til Gautaborgar í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins.

  • Í efstu deild kvenna í Sviss vann GC Amicitia Zürich lið HV Herzogenbuchsee, 30:24, á heimavelli. Sunna Guðrún Pétursdóttir varði fjögur skot, 45%, þann skamma tíma sem hún stóð marki GC Amicitia Zürich í leiknum. Harpa Rut Jónsdóttir skoraði ekki fyrir GC Amicitia Zürich sem er í fjórða sæti deildarinnar.
  • Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk þegar Veszprém gerði óvænt jafntefli við HSA NEKA, 29:29, í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær. Þetta er fyrsta stigið sem Veszprém tapar á keppnistímabilinu heima fyrir. HSA NEKA er akademíulið ungra handknattleiksmanna sem situr í sjöunda sæti af 14 liðum deildarinnar. Veszprém er í öðru sæti ungversku 1. deildarinnar, stigi á eftir Pick Szeged, en á leik til góða.
  • Sveinn Jóhannsson skoraði þrjú mörk og var einu sinni vikið af leikvelli þegar lið hans, GWD Minden, krækti í mikilvægt stig í botnbaráttu þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í gær á heimavelli þegar leikmenn Göppingen komu í heimsókn, 27:27. Göppingen skoraði þrjú síðustu mörk leiksins. Minden er næst neðst í deildinni með sjö stig eftir 22 leiki og á leik inni á Wetzlar sem er í næsta sæti fyrir ofan með níu stig.
  • Halldór Jóhann Sigfússon og lærisveinar í TTH Holstebro töpuðu fyrir Aalborg Håndbold á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær, 33:26. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold. Aron Pálmarsson lék ekki með liðinu vegna meiðsla. Alborg er efst í deildinni. TTH Holstebro er í áttunda sæti þegar tvær umferðir eru eftir. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina. Ribe-Esbjerg er í níunda sæti, einnig með 20 stig. TTH Holstebro og Ribe-Esbjerg mætast í lokaumferðinni 5. apríl.
  • Roland Eradze aðstoðarþjálfari úkraínska meistaraliðsins HC Motor fagnaði sigri með liðsmönnum sínum á Dessauer, 32:30, í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gær. HC Motor er í 17. sæti af 20 liðum deildarinnar með 17 stig að loknum 24 leikjum.
  • Liðsmenn Hannesar Jóns Jónssonar í Alpla Hard gerðu jafntefli í Bregenz í grannslag í austurrísku 1. deildinni í handknattleik í gær, 23:23. Alpla Hard er í fjórða sæti deildarinnar með 27 stig eftir 20 leiki, er níu stigum á eftir Krems sem trónir sem fyrr á toppnum.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -