- Auglýsing -
- Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson sex þegar SC Magdeburg vann Wetzlar á heimavelli í gær þegar titilvörn Magdeburg í þýsku 1. deildinni hófst.
- Áfram heldur sigurganga ungverska liðsins OTP Bank-PICK Szeged sem Janus Daði Smárason gekk til liðs við í sumar. Í gær vann Pick Szeged lið MOL Tatabánya, 33:27, á heimavelli og hefur þar með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Janus Daði skoraði þrjú mörk.
- Janus Daði mætir sínum fyrri samherjum í SC Magdeburg í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á heimavelli á fimmtudaginn þegar nýtt keppnistímabil hefst í deildinni.
- Stöðuna í þýsku, ungversku og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur hjá Sporting með sjö mörk þegar liðið vann Vitória, 39:26, á heimavelli í annarri umferð portúgölsku 1. deildarinnar í gær. Orri Freyr hefur greinilega jafnað sig af ökklameiðslum sem hrjáðu hann á dögunum. Sporting hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni.
- Næsti leikur Orra Freys og félaga verður gegn pólsku meisturunum í Wisla Plock í Meistaradeild Evrópu á heimavelli á miðvikudagskvöld. Viktor Gísli Hallgrímsson er markvörður Wisla Plock.
- Talandi um Viktor Gísla og Wisla Plock þá vann liðið Industria Kielce, 27:23, í meistarakeppninni í pólsku úrvalsdeildinni í gær. Gamla brýnið, Mirko Alilovic markvörður, var valinn maður leiksins svo sennilega hefur Viktor Gísli ekki komið mikið við sögu.
- Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Porto þegar liðið vann Benfica, 27:24, í annarri umferð portúgölsku 1. deildinni í gær. Leikurinn fór fram í Lissabon. Stiven Tobar Valencia skoraði tvö af mörkum Benfica.
- Stöðuna í portúgölsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Ólafur Brim Stefánsson og samherjar í Povazska Bystrica hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í efstu deild slóvanska handknattleiksins. Í gær vann Povazska Bystrica stórsigur á Zahoraci, 33:19, á heimavelli. Ólafur gekk til liðs við Povazska Bystrica í sumar.
- Því miður hefur gengið illa að finna tölfræði úr úrvalsdeildinni í Slóvakíu. Hafi lesendur upplýsingar hvar þær er að finna má senda þær á tölvupósti á [email protected] eða í gegnum skilaboðaskjóðu á Facebook-síðu handbolti.is.
- Ribe-Esbjerg tapaði fyrir Aalborg Håndbold, 33:29, í 1. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í gær en leikið var í Álaborg. Elvar Ásgeirsson hefur jafnaði sig eftir aðgerð á öxl í sumar. Hann tók þátt í leiknum og skoraði eitt mark auk þess að eiga tvær stoðsendingar.
- Ágúst Elí Björgvinsson stóð í marki Ribe-Esbjerg hluta leiksins og varði fjögur skot, þar af var eitt vítakast.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir og félagar hennar í Aarhus Håndbold unnu Skanderborg, 26:24, á heimavelli í gær í annarri umferð dönsku úrvalsdeildarinnar. Þetta var fyrsti sigur Aarhus Håndbold í deildinni. Elín Jóna kom lítið við sögu, fékk að spreyta sig á að verja tvö vítaköst en varði hvorugt. Félagi hennar í markinu, Sabine Engelert, varði vel, alls 14 skot, 39%.
- Alpla Hard tapaði á útivelli fyrir Handball Tirol, 29:26, í annarri umferð austurrísku 1. deildarinnar í handknattleik í gær. Tumi Steinn Rúnarsson lék vel fyrir Alpla Hard. Hann skoraði m.a. sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Hannes Jón Jónsson þjálfar Alpla Hard. Liðið er með eitt stig eftir tvo fyrstu leikina.
- Stöðuna í dönsku og austurrísku deildunum og fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -