- Auglýsing -
- StÍF frá Skálum í Skálavík vann færeyska meistaratitilinn í handknattleik kvenna í gærkvöld þegar liðið lagði Neistan með tíu marka mun, 30:20, í fjórðu viðureign liðanna um meistaraitilinn en leikið var í Skálum. Þetta var í fyrsta skipti í þrjá áratugi sem kvennalið frá Skálum vinnur færeyska meistaratitilinn í handknattleik kvenna og eðlilega ríkti mikil sigurgleði á vellinum í leikslok. Lið StÍF komst nokkuð óvænt í úrslit eftir að hafa lagt H71 í undanúrslitum og orðið í fjórða sæti í úrvalsdeildinni.
- VÍF frá Vestmanna varð meistari í karlaflokki í Færeyjum eftir sigur á meisturum síðustu þriggja ára, H71, 34:24, í fjórða leik liðanna um meistaratitilinn en leikið var í Hoyvik. Reyndar var ekki krýndur meistari á síðasta ári en H71 vann 2017, 2018 og 2019. Þetta er í 24. skipti sem VÍF verður færeyskur meistari í handknattleik karla.
- Atli Steinn Arnarson, 17 ára gamall handknattleiksmaður, hefur skrifað undir samning við FH. Hann kemur til félagsins í sumar frá Haukum. Atli Steinn getur leikið bæði á miðjunni og í vinstri skyttu og hefur átt sæti í U17 ára landsliði Íslands eftir því sem segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild FH.
- Íslenskir dómarar eru ekki á lista sem Alþjóða handknattleikssambandið gaf út í dag með nöfnum þeirra dómara sem dæma leiki í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna sem fram eiga að fara fram í Japan frá síðari hluta júlí og fram í byrjun ágúst. Um er að ræða 19 dómarapör, þar af eru þrjú flokkuð sem varapör. Á listanum eru tvö pör frá Norðurlöndunum. Fimm paranna nítján eru konur en 14 pör af karlmönnum.
- Auglýsing -