- Auglýsing -
- Christian Prokop fyrrverandi landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla hefur skrifað undir nýjan samning við Hannover-Burgdorf til næstu tveggja ára. Prokop tók við þjálfun liðsins fyrir þremur árum og hefur síðan náð athyglisverðum árangri. M.a. lék Hannover-Burgdorf í Evrópukeppni á síðustu leiktíð.
- Heiðmar Felixson hefur verið aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf og starfað við hlið Prokop frá 2021. Hann verður áfram í sínu sæti.
- Prokop tók við þjálfun þýska karlalandsliðsins 2017 af Degi Sigurðssyni en hætti þremur árum síðar. Alfreð Gíslason tók þá við þjálfun þýska landsliðsins.
- Spánverjinn Toni Gerona hefur tekið við starfi landsliðsþjálfara Japans í handknattleik karla. Gerona var síðast með serbneska karlalandsliðið frá 2020 og fram yfir EM í Þýskalandi í upphafi þessa árs. Hann var leystur frá störfum að mótinu loknu. Ekki kemur fram til hvers langs tíma Gerona er ráðinn. Carlos Ortega sem var þjálfari japanska landsliðsins á Ólympíuleikunum tók aðeins tímabundið við starfinu eftir að Dagur Sigurðsson hætti í byrjun mars.
- Fyrsta stóra verkefni Gerona með japanska landsliðið verður þátttaka í heimsmeistaramótinu í janúar á næsta ári. Japanska landsliðið verður í riðli með landsliðum Svíþjóðar, Spánar og Chile. Leikið verður í Ósló.
- Áfram er norska meistaraliðið Vipers Kristiansand í fjárhagserfiðleikum þótt vonir stóðu til þess í sumar að salan á rússnesku handknattleikskonunni Anna Vyakhireva til Brest í sumar nægði til þess að létta félaginu róðurinn í viðbót við aðstoð sem félagið fékk síðla vetrar. Forráðamenn félagsins segja fimm milljónir norskra króna, um 64 milljónir íslenskra vanti í peningakassann næstu vikurnar auk þess sem sex milljónir norskra króna sé leitað til að komast í gegnum síðari hluta tímabilsins.
- Vipers Kristiansand vann m.a. Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð, 2021, 2022, 2023.
- Spænski handknattleiksmaðurinn Viran Morros hefur ákveðið að láta gott heita með landsliðinu eftir 20 ár með landsliðinu. Morros er aðallega þekktur sem varnarmaður og harður í horn að taka sem slíkur. Hann hefur síðustu ár leikið með Pfadi Winterthur í Sviss. Alls lék Morros 259 landsleiki fyrir Spán og vann m.a. þrenn gullverlaun, HM 2013 og á EM 2018 og 2020. Hann var ekki í spænska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Frakklandi á dögunum.
- Handknattleiksmenn frá Kólumbíu hafa ekki verið áberandi í evrópskum handknattleik. Kannski verður breyting á. Alltént hefur línumaðurinn Jesus Hurtado Vergara samið við slóvenska liðið RK Celje. Kemur hann að láni frá Porto og leysir af Leon Gregoric sem verður frá um langt skeið vegna meiðsla. Paulo Pereira, landsliðsþjálfari Portúgals, sem tók við þjálfun Celje í sumar þekkir til Vergara frá Portúgal.
- Auglýsing -