- Auglýsing -
- Lene Rantala, fyrrverandi landsliðskona Danmerkur, hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari Evrópu– og Noregsmeistara Vipers Kristiansand og mun þar með starfa við hlið Tomáš Hlavaty sem tók við þjálfun liðsins í sumar. Rantala, sem er 54 ára gömul, þekkir vel til í norskum kvennahandknattleik. Hún var m.a. í 17 ár hjá Larvik sem leikmaður og þjálfari.
- Sandra Erlingsdóttir skoraði þrjú mörk, þar af eitt úr vítakasti, þegar lið hennar TuS Metzingen vann ungverska liðið Alba Fehérvár KC, 24:23, í æfingaleik í Ungverjaland í gær. Þetta var annar leikur TuS Metzingen á jafn mörgum dögum í æfingaferð liðsins.
- Keppni í 1. deild kvenna í Þýskalandi hefst 9. september. Áður en deildakeppnin hefst mæta Sandra og samherjar í liði TuS Metzingen liðkonum SG Kappelwindeck/Steinbach á útivelli í 1. umferð bikarkeppninnar miðvikudaginn 2. september.
- Sama dag leika Díana Dögg Magnúsdóttir og hennar félagar í BSV Sachsen Zwickau á móti HSV Solingen-Gräfrath 76 í fyrstu umferð bikarkeppninnar. Leikurinn verður í Solingen. BSV Sachsen Zwickau tekur þátt í æfingamóti um helgina.
- Hægri hornamaður þýska handknattleiksliðsins Gummersbach sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, Lukas Blohme, meiddist á ökkla á dögunum og gekkst undir aðgerð í gær. Í tilkynningu frá félaginu reiknar þjálfarinn með að Blohme verði frá keppni um ótiltekinn tíma og missi af upphafsleikjum keppnistímabilsins. Flautað verður til leiks í þýsku 1. deildinni eftir mánuð. Blohme skoraði 179 mörk í 34 leikjum 1. deildar á síðasta keppnistímabili.
- Serbneski handknattleiksmaðurinn Bogdan Radivojevic, sem var laus undan samningi hjá Telekom Veszprém í sumar mun vera í viðræðum við RK Eurofarm Pelister, meistaralið Norður Makedóníu sem ætlar sér stóra hluti á komandi leiktíð. Félagið hefur rakað til sín nýjum mönnum og stefnir á að standa sig í stykkinu í Meistaradeild Evrópu og verja titilinn heima fyrir. Alltént virðist allt vera lagt í sölurnar.
- Auglýsing -