- Franski landsliðsmaðurinn Melvyn Richardson gengur til liðs við pólska meistaraliðið Wisla Plock frá og með sumrinu 2025. Félagið sagði frá þessu í fyrradag en orðrómur um væntanleg vistaskipti Richardson hefur verið uppi síðustu vikur. Richardson leikur með Barcelona og var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildar Evrópu í vor.
- Þýski handknattleiksmaðurinn Julius Kühn hefur samið við nýliða þýsku 1. deildarinnar, SG BBM Bietigheim. Kühn hefur verið í herbúðum Melsungen um árabil en stóð ekki til boða nýr samningur hjá félaginu. Kühn er 31 árs gamall og á að baki tæplega 100 landsleiki fyrir Þýskaland. Hann var m.a. í sigurliðinu á EM 2016.
- Króatinn Vlado Šola hefur verið ráðinn þjálfari handknattleiksliðs Dubrava í heimalandi sínu. Hann þekkir vel til hjá félaginu, hefur starfað þar áður. Šola var áður landsliðsþjálfari Svartfellinga og varð þjóðhetja þegar Svartfellingar unnu Serba í riðlakeppni Evrópumótsins í München í janúar. Sól hans sem landsliðsþjálfara gekk snarlega til viðar þegar Svartfellingar töpuðu óvænt fyrir Ítölum í undankeppni HM í maí. Šola var ekkert að tvínóna heldur sagði starfi sínu lausu á blaðamannafundi strax að loknum síðari leiknum.
- Franski markvörðurinn Yann Genty hefur samið við gríska liðið AEK Aþenu til eins árs. Genty hefur átt sæti í franska landsliðinu annað slagið síðustu ár og var m.a. í sigurliði Frakka á Ólympíuleikunum í Tókýó fyrir þremur árum. Talsvert rót hefur verið á kappanum en síðasta árið var hann hjá Saran Loiret Handball. M.a. var Genty hjá stórliði PSG frá 2020 til 2022.
- Franska landsliðskonan Aïssatou Kouyaté hefur samið við Rapid Búkarest. Kouyaté er ein þeirra sem leyst var undan samningi hjá ZRK Buducnost á dögunum eftir að ljóst varð að félagið er á barmi gjaldþrots.
- Auglýsing -