- Rúnar Sigtryggsson og lærisveinar hans í EHV Aue töpuðu fyrir Dormagen á útivelli, 28:26, í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði ekki marki í leiknum fyrir Aue og Sveinbjörn Pétursson varði eitt skot í marki liðsins á þeim 20 mínútum sem hann stóð vaktina. Eftir að hafa átt erfitt uppdráttar upp á síðkastið er EHV Aue farið niður í 13. sæti deildarinnar með 23 stig eftir 25 leiki. Nítján lið eiga sæti í deildinni.
- Klaus Gärtner tekur við þjálfun Rhein-Neckar Löwen í sumar en hann er núverandi aðstoðarþjálfari liðsins. Gärtner verður aðeins aðalþjálfari liðsins í eitt ár vegna þess að sumarið 2022 tekur Sebastian Hinze við þjálfun Löwen. Hinze er núverandi þjálfari Bergischer HC. Samningur hans við félagið rennur út eftir rúmt ár.
- Mats Olsson hefur verið ráðinn markvarðaþjálfari norsku meistaranna Elverum. Olsson verður jafnframt áfram markvarðaþjálfari norska kvennalandsliðsins en hann gegndi sama starfi hjá sænska karlalandsliðsinu þangað til í febrúar á þessu ári að Tomas Svensson tók við af honum.
- Annar þrautreyndur sænskur markvörður, Dan Beutler, hefur framlengt samning sinn við Malmö HK til eins árs, til loka leiktíðar 2022. Beutler hefur leikið með Malmö síðan í byrjun árs í fyrra þegar hann losnaði úr leikbanni eftir að hafa verið uppvís að notkun ólöglegra lyfja. Beutler er 43 ára gamall og lék um árabil í Þýskalandi.
- Danski handknattleiksþjálfarinn Morten Soubak sem verið hefur þjálfari kvennalandsliðs Angóla síðustu fjögur ár tekur við þjálfun Dunărea Brăila í sumar. Soubak verður áfram við stjórnvölinn hjá Angóla samhliða starfi sínu í Rúmeníu. Soubak var m.a. landsliðsþjálfari Brasilíu þegar liðið var heimsmeistari kvenna 2013.
- Aron Pálmarsson lék ekki með Barcelona í gær þegar liðið vann Dicsa Modular Cisne, 43:21, í spænsku 1. deildinni í handknattleik á heimavelli. Þetta var 28. sigur Barcelona í deildinni á leiktíðinni.
- Auglýsing -