- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Sandra, Andrea, Ómar Ingi, Ameríkukeppni, Dedu

Sandra Erlingsdóttir og samherjar fagna sigri á æfingamóti í Frakklandi. Mynd/Venus Cup
- Auglýsing -
  • Sandra Erlingsdóttir og samherjar hennar í EH Aalborg gerðu það gott á æfingamóti í Frakklandi fyrir og um helgina. Í gær vann EH Aalborg lið Sambre-Avesnois Handball, 25:24, og á laugardaginn vann Álaborgarliðið annað franskt lið, Rennes Métropole Handball, 26:25. Á föstudaginn töpuðu Sandra og félagar fyrir Le Havre með eins marks mun.
  • Á föstudaginn leikur EH Aalborg sinn fyrsta opinbera leik á tímabilinu þegar það mætir Nykøbing Falster eða NFH í átta liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar. Leikið verður á heimavelli Álaborgarliðsins. Keppni í dönsku B-deildinni hefst laugardaginn 18. september.
  • Andrea Jacobsen, landsliðskona í handknattleik skoraði fimm mörk, þegar Kristianstad HK vann Eskilstuna Guif, 31:22, í annarri umferð riðlakeppni 32-liða úrslita sænsku bikarkeppninnar í gær. Kristianstad HK hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlakeppninni og er öruggt um annað af tveimur efstu sætum riðilsins sem tryggir liðinu sæti í 16-liða úrslitum. Síðasti leikur liðsins í þessari umferð keppninnar verður gegn Skövde um næstu helgi.
  • Ómar Ingi Magnússon og samherjar í SC Magdeburg unnu Vardar Skopje, 31:20, í úrslitaleik æfingamóts í Magdeburg um helgina. Um 3.000 áhorfendur mættu að jafnaði á hvern leikdag mótsins sem er mikil breyting frá síðasta keppnistímabili þegar nær allir heimaleikir liðsins fóru fram fyrir luktum dyrum.
  • Grænland vann Mexíkó, 33:27, og Púertó Ríkó vann Bandaríkin, 27:20, í fyrstu umferð forkeppni fyrir heimsmeistaramót kvenna, Ameríkuhluta. Leikirnir fór fram seint í gærkvöld og í nótt að íslenskum tíma. Aðeins fjórar þjóðir sendu lið til mótsins sem fram fer í Elgin í Illinois, skammt frá Chicago. Kórónuveiran mun setja strik í reikninginn og koma í veg fyrir að fleiri landslið taki þátt. Ríkjandi meistari á þessu svæði, Kúba, treysti sér m.a. ekki til þess að senda landslið sitt til leiks. Tvö lið af fjórum tryggja sér keppnisrétt á HM á Spáni í desember.
  • Rúmenski landsliðsmarkvörðurinn Denisa Dedu er kominn í frí frá handknattleik og verður m.a. ekki með landsliðinu á HM í Rúmeníu í desember. Dedu og eiginmaður hennar Ciprian Șandru eiga von á barni snemma á næsta ári. Dedu gekk til liðs við Rapid Búkarest í sumar eftir nokkra veru hjá meistaraliðinu CSM í Búkarest.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -