- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og samherjar hans í PAUC unnu í gær Dunkerque, 29:24, í frönsku 1. deildinni í handknattleik á heimavelli. Donni átti átti eitt markskot í leiknum en tókst ekki að skora. PAUC er í fimmta sæti með 28 stig eftir 22 leiki og er tveimur stigum á eftir Nimes sem hefur leikið einum leik fleira. PSG, Montpellier og Nantes eru sem fyrr í þremur efstu sætunum.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar í Skövde töpuðu í gærkvöld fyrsta leiknum við Sävehof í úrslitum um sænska meistaratitilinn í handknattleik. Tvíframlengja varð leikinn til þess að knýja fram úrslit og fór svo að leikmenn Sävehof náðu að kreista út eins marks sigur, 38:37. Bjarni Ófeigur skoraði ekki mark í leiknum. Næsti leikur liðanna verður í Skövde á laugardaginn.
- Odense Håndbold vann Danmerkurmeistara Team Esbjerg, 27:26, í fyrri leik liðanna í undanúrslitum um danska meistaratitilinn í handknattleik kvenna í gærkvöld. Leikið var í Óðinsvéum. Liðin mætast öðru sinni á laugardaginn í Esbjerg. Lois Abbingh skoraði 10 mörk fyrir Odense og Nycke Groot fimm. Nerea Pena var markahæst hjá Esbjeg með níu mörk og Annette Jensen var næst með sex mörk. Herning-Ikast og Viborg mætast í fyrri leik sínum í undanúrslitum í Herning í kvöld.
- Ringkøbing Håndbold, sem Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður gengur til liðs við í sumar er komið áfram í dönsku bikarkeppninni í handknattleik. Ringkøbing Håndbold vann Århus United, 35:29, í gærkvöld. Í Danmörku hefst bikarkeppnin í kvennaflokki á vorin og lýkur fyrir áramót á næsta keppnistímabili.
- Bence Banhidi, línumaðurinn sterki, hefur skrifað undir nýjan samning við Pick Szeged í Ungverjalandi. Samningurinn gildir til ársins 2025.
- Hermt er að franski landsliðsmaðurinn Nedim Remili yfirgefi PSG eftir ár og gangi til liðs við Vive Kielce. Samningur milli Remili og pólsku meistaranna mun vera í burðarliðnum.
- Auglýsing -